Uppnám í Straumsvíkurmáli

Verjendur og Geir Hlöðver fyrir aftan þá í dómsal í …
Verjendur og Geir Hlöðver fyrir aftan þá í dómsal í dag. Morgunblaðið/Andri Karl

Alls óvíst er hvenær aðalmeðferð í Straumsvíkurmálinu lýkur. Krafa verjenda um að leiða fyrir dóminn vitni búsett í Hollandi og um aðgang að öllum upptökum setur strik í reikninginn. Hlerað var hjá sakborningum í hálft ár og ef fallist verður á kröfuna er ljóst að langur dráttur verður á málinu.

Aðalmeðferðin hófst í morgun og gengu skýrslutökur yfir sakborningum og vitnum vel. Á fjórða tímanum var vitnalisti dagsins tæmdur en þá tók við að reyna að útkljá deilur um framhaldið. Til stóð að taka skýrslur af síðustu vitnum á föstudag og flytja málið í kjölfar þess. Og þó svo enn liggi fyrir að halda áfram á föstudag er ljóst að bið verður á því að málið verði flutt.

Eins og fram hefur komið á mbl.is snýr málið aðallega að innflutningi á fíkniefnum frá Rotterdam í Hollandi. Um var að ræða tæp tíu kíló af amfetamíni, 8.100 e-töflur og rúm tvö hundruð grömm af kókaíni. Efnin fundust í vörugámi skips sem lagðist að bryggju í Straumsvík 10. október síðastliðinn.

Tveir aðalmenn eru ákærðir í málinu, Geir Hlöðver Ericsson og Sævar Sverrisson. Lögregla hleraði síma Geirs Hlöðvers og heimili frá vormánuðum 2011 og fram á haust. Verjandi hélt því fram fyrir dómi í dag að aðeins hafðu verið valdar upptökur í málinu og bornar undir skjólstæðing sinn. Ýmislegt geti leynst á upptökunum sem sé honum hagstætt. Eina leiðin til þess að komast að því sé að fá aðgang að upptökunum.

Engin kátína ríkti meðal ákæruvaldsins með þessa kröfu og enn síður með skilning dómara málsins á henni. Dómari gerði saksóknara að útbúa aðstöðu á lögreglustöð þar sem sakborningar og verjendur geta hlustað á upptökurnar.

Þá var gerð krafa um að tvö vitni kæmu frá Hollandi og gæfu skýrslu. Er meðal annars um að ræða mann sem afhenti Sævari fíkniefnin. Sú niðurstaða fékkst, að reynt yrði að taka skýrslu af öðrum mannanna en ákæruvaldið sker úr um hvað gert verði í máli hins á föstudag.

Þegar leitað var eftir upplýsingum um það hjá dómara hvernig málum verði háttað eftir föstudag var fátt um svör. Það ráðist af ýmsum þáttum, ekki síst umræddum upptökum. 

Áframhaldandi gæsluvarðhald

Héraðsdómur féllst á það í morgun að framlengja gæsluvarðhald yfir Sævari um fjórar vikur, en hann hefur verið í haldi frá 10. október. Í úrskurði héraðsdóms er þess meðal annars getið að krafa um framlengingu sé samþykkt á þeirri forsendu að aðalmeðferð sé hafin og fari að ljúka. Sævar brást því reiður við í dómsal í dag þegar gantast var með það í dómsal að málið hljóti að klárast í haust, þegar hlustað hefur verið á allar upptökurnar. Verjandi Sævars, Ómar Örn Bjarnþórsson, hefur þegar kært úrskurðinn til Hæstaréttar.

Ljóst er að forsendur fyrir gæsluvarðhaldi Sævars eru brostnar ef aðalmeðferðin dregst áfram, Hæstiréttur tekur úrskurðinn fyrir á næstu dögum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert