Vilja aukið framboð húsnæðis

Ráðherrarnir þrír við undirritunina.
Ráðherrarnir þrír við undirritunina.

Þrír ráðherrar hafa undirritað sameiginlega viljayfirlýsingu um næsta skref verkefnisins „Vandað, hagkvæmt, hratt“, en í tilkynningu frá velferðarráðuneytinu segir að meginmarkmið verkefnisins sé að skoða í víðu samhengi leiðir sem aukið geta fjölbreytni og framboð á hagkvæmu húsnæði, ekki síst í þágu ungs fólks og tekjulágs.

Byggist verkefnið á samþykkt ríkisstjórnarinnar um aðgerðir á sviði húsnæðismála sem ætlað er að fjölga hagkvæmum og ódýrum íbúðum, styðja við leigumarkað og kaup á fyrstu íbúð og tryggja aukið framboð á íbúðarhúsnæði.

Meðal tilgreindra aðgerða í samþykktinni er endurskoðun á regluverki skipulags- og byggingarmála sem unnið er að af hálfu starfshóps sem umhverfis- og auðlindaráðherra skipaði sl. vor, með það að markmiði að lækka byggingarkostnað.

Með yfirlýsingunni sem Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra, Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra og Sigrún Magnúsdóttir, umhverfis- og auðlindaráðherra, undirrituðu í dag, staðfestu þær tillögu um að verkefnið verði það fyrsta hjá svokölluðum Byggingarvettvangi, sem er samstarfsvettvangur ýmissa fyrirtækja, stofnana og ráðuneyta á þessu sviði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert