Óæskileg hegðun á Landspítala könnuð

Landspítalinn við Hringbraut. Gerð hefur verið örkönnun á óæskilegri hegðun …
Landspítalinn við Hringbraut. Gerð hefur verið örkönnun á óæskilegri hegðun á vinnustaðnum. mbl.is/Ómar Óskarsson

19,6% starfsmanna Landspítalans hafa upplifað niðurlægjandi framkomu, hótanir eða ofbeldi af hálfu sjúklinga spítalans á síðustu 12 mánuðum, samkvæmt örkönnun um upplifun starfsmanna á óæskilegri hegðun innan vinnustaðarins, sem spítalinn framkvæmdi í desember. Niðurstöður könnunarinnar eru kynntar í frétt á vefsíðu Landspítala í dag.

1000 starfsmenn voru valdir af handahófi og spurðir um fjóra flokka óæskilegrar hegðunar sem fólk getur upplifað í starfi sínu og hvort þeir hefðu upplifað slíka hegðun síðustu 12 mánuði. Þá var spurt hver hefði sýnt af sér þessa tilteknu óæskilegu hegðun; sjúklingur, aðstandandi, samstarfsmaður eða stjórnandi.

Niðurstöður úr örkönnun á óæskilegri hegðun innan Landspítala.
Niðurstöður úr örkönnun á óæskilegri hegðun innan Landspítala. Mynd/Landspítalinn

6% hafa upplifað einelti af hálfu samstarfsmanna

13,2% þeirra sem svöruðu könnuninni höfðu upplifað niðurlægjandi framkomu, hótanir eða ofbeldi af hálfu samstarfsmanna sinna og 6% telja sig hafa orðið fyrir einelti af hendi samstarfsmanna á síðustu 12 mánuðum og 3% af hálfu stjórnanda.

4,7% starfsmanna sagðist hafa upplifað kynferðislega áreitni af hálfu sjúklinga á tímabilinu og 1,8% hafði orðið fyrir slíkri hegðun af hálfu samstarfsmanna á Landspítala.

Á vef Landspítala segir að sem betur fer hafi meirihluti starfsmanna ekki upplifað neina af þeim tegundum óæskilegrar hegðunar sem spurt var um á síðustu tólf mánuðum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert