Dópaðir og óku allt of hratt

Ökumenn tveggja bifreiða eiga jafnvel yfir höfði sér ökuleyfissviptingu eftir að hafa ekið bifreiðum, þar sem önnur bifreiðin var dregin af hinni, undir áhrifum fíkniefna og á rúmlega tvöfalt meiri hraða en heimilt er.

Að sögn varðstjóra í lögreglunni á Suðurnesjum voru ökumennirnir stöðvaðir eftir að hafa komið inn á Aðalgötuna í Reykjanesbæ af Reykjanesbrautinni. Reyndust bifreiðarnar vera á 61 km hraða en ekki er heimilt að aka bifreið, sem er með aðra í eftirdragi, á meira en 30 km hraða. Í ljós kom að báðir voru undir áhrifum fíkniefna undir stýri. 

Lögreglan stöðvaði einnig för fimm ökumanna sem óku of hratt á Suðurnesjum í gærkvöldi og nótt. Sá sem ók hraðast mældist á 148 km hraða þar sem heimilaður hámarkshraði er 90 km/klst.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert