Niðurstaða í mál Sunnu á næstu dögum

Sunna Elvira Þorkelsdóttir
Sunna Elvira Þorkelsdóttir

Rannsókn lögreglunnar í svokölluðu skáksambandsmáli er á lokastigi og gerir lögreglan ráð fyrir því að málið verði sent til embættis héraðssaksóknara í næstu viku. Þetta staðfestir Hulda Elsa Björgvinsdóttir, sviðstjóri ákærusviðs, hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, við mbl.is

Einn maður er í gæsluvarðhaldi vegna málsins, en Sigurður Kristinsson var handtekinn þegar hann kom til landsins frá Spáni í janúar. Vakti málið talsverða athygli, ekki síst vegna þess að eiginkona hans hafði stuttu áður slasast alvarlega á Spáni og lá lömuð á sjúkrahúsi þar í landi.

Ákæra þarf í málinu fyrir 19. apríl þegar ákærufrestur rennur út. Að öðru óbreyttu þarf að sleppa Sigurði úr haldi, samanber lög um meðferð sakamál.

Sunna Elvira Þorkelsdóttir, eiginkona Sigurðar, var sett í farbann á Spáni af þarlendum yfirvöldum. Íslensk yfirvöld sendu spænskum yfirvöldum réttarbeiðni um að lögreglan hér á landi tæki yfir rannsókn þess á anga málsins sem teygir sig til Spánar. Hulda Elsa segir að enn sé ekki komin niðurstaða í það mál, en að líklega muni það skýrast á næstu dögum hvort spænsk yfirvöld verði við beiðninni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka