Vill vegabréfaeftirlit gagnvart Schengen

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins. mbl.is/Kristinn Magnússon

Miðflokkurinn samþykkti á landsþingi sínu um síðustu helgi meðal annars ályktun um dómsmál þar sem fram kemur að flokkurinn vilji að tekið verði upp virkt vegabréfaeftirlit gagnvart öðrum ríkjum innan Schengen-samstarfsins, en því var bætt við drög að ályktuninni á þinginu. Einnig að ávinningur af samstarfinu fyrir hagsmuni Íslands verði metinn.

Sömuleiðis vill Miðflokkurinn efla landamæravörslu og greiningarstarf löggæslustofnana og auka eftirlit við komustaði til landsins. Flokkurinn vill einnig að stofnsett verði Öryggis- og varnarmálastofnun sem verði sjálfstæð en heyri undir utanríkisráðuneytið og fari með öryggis- og varnarmál landsins að því er segir í ályktun hans um utanríkismál.

Miðflokkurinn vill ennfremur að fram fari „óháð mat á því hvort halda skuli áfram þátttöku í EES-samstarfinu og sækjast eftir breytingum á samningnum eða segja sig frá honum.“ Þegar beri að segja Ísland frá tollasamning við Evrópusambandið frá 2015 þar sem samningurinn hafi verið gerður án samráðs við hagsmunaaðila og vegna breyttra forsendna.

Flokkurinn hafnar alfarið inngöngu í Evrópusambandið en vill að Ísland taki virkan þátt í evrópsku samstarfi. „Aðild að Evrópusambandinu er ekki forsenda virkra samskipta og þátttöku í samstarfi við þjóðir Evrópu.“ Þá leggur flokkurinn áherslu á mikilvægi þess að ná góðum samningum við Bretland í kjölfar útgöngu landsins úr sambandinu.

Miðflokkurinn styður aðild Íslands að NATO og varnarsamninginn við Bandaríkin, vill auka framlög til þróunaraðstoðar í átt að markmiði Sameinuðu þjóðanna um að 0,7% af landsframleiðslu renni til málaflokksins, að Íslandi sé virkt í hagsmunagæslu á Norðurslóðum og að viðskiptahagsmunir landsins verði tryggðir með hagfelldum viðskiptasamningum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert