Veitti eigin bíl eftirför uns lögregla tók við

Frá eftirför lögreglu í morgun. Ökumaðurinn komst undan á hlaupum, …
Frá eftirför lögreglu í morgun. Ökumaðurinn komst undan á hlaupum, en náðist um klukkustund síðar. Ljósmynd/Bjarni Már Ólafsson

Er Bjarni Már Ólafsson íbúi í Laugardal gekk út klukkan kortér yfir sjö í morgun varð hann þess áskynja að bíll hans, svartur Wrangler-jeppi, var ekki lengur á sínum stað. Á leið sinni á lögreglustöðina við Hverfisgötu að tilkynna þjófnað mætti hann svo sínum eigin jeppa á Snorrabrautinni. Hann hafði strax samband við lögreglu og elti bílinn sjálfur upp Sæbrautina, þar til lögregla mætti á vettvang og tók yfir eftirförina.

Bjarni Már segir að í bílnum hafi fundist „þýfi og fleira skemmtilegt,“ en lögregla stöðvaði för jeppans við skemmu í Sundahöfn. Tvennt var um borð, karl og kona, og slapp karlmaðurinn af vettvangi á hlaupum, en konan náðist. „Bílstjórinn slapp en gleymdi símanum sínum í bílnum, þannig að löggan vissi hver hann var,“ segir Bjarni í samtali við mbl.is.

Lögregla leitaði á svæðinu í leit að ökumanninum, en án árangurs fyrst um sinn. Maðurinn var svo handtekinn um klukkustund síðar „úti á götu“, samkvæmt Árna Friðleifssyni, varðstjóra hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu. Hann staðfestir frásögn Bjarna af atvikinu og segir ökumanninn vera góðkunningja lögreglunnar.

Hann er í haldi lögreglu, en Árni segir að kvenmaðurinn sem var farþegi í bílnum tengist málinu ekki á neinn hátt.

„Í svona tilvikum erum við alltaf fegnastir því að það slasist enginn, það er númer eitt, tvö og þrjú að almennir borgarar slasist ekki,“ segir Árni.

Feginn er hann mætti bílnum

Bjarni segir líklegast að bíllinn hafi verið tekinn undir morgun, en kærasta Bjarna sá bílinn í stæði fyrir utan heimili þeirra um klukkan þrjú í nótt.

„Bíllinn var læstur en honum tókst að opna og starta með einhverjum lykli sem hann var með,“ segir Bjarni um þjófnaðinn, en hann segist hafa verið „ógeðslega feginn“ er hann mætti bílnum sínum á Snorrabrautinni í morgun, þar sem á þeirri stundu varð hann viss um að bíllinn myndi skila sér.

Lögregla var fljót á vettvang að sögn Bjarna og eftirförin tók skamman tíma.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert