Umræða á mannamáli

„Ráðstefnan er ekki hugsuð sem læknaráðstefna, heldur hugsum við þetta …
„Ráðstefnan er ekki hugsuð sem læknaráðstefna, heldur hugsum við þetta sem stutta ráðstefnu fyrir almenning þar sem við ræðum þessi krabbamein á mannamáli.“ mbl.is/​Hari

Árlega greinast hér á landi um sextíu konur með krabbamein í kvenlíffærum og er leghálskrabbamein þar algengast. Sigrún Arnardóttir, læknir og formaður Lífs styrktarfélags, segir þörf á að opna umræðuna um þessar tegundir krabbameins, en hún geti verið feimnismál hjá konum.

Krabbameinsfélagið og Líf styrktarfélag standa í dag fyrir ráðstefnu í tengslum við svokallað Globeathon-átak sem er haldið á heimsvísu og ætlað að vekja athygli á krabbameini í kvenlíffærum.

Ráðstefna á mannamáli fyrir almenning

Fyrsta Globeathon-hlaupið fór fram á Íslandi árið 2012 en Sigrún segir ráðstefnuna í ár þá þriðju sem haldin er í tengslum við hlaupið. 

„Ráðstefnan er ekki hugsuð sem læknaráðstefna, heldur hugsum við þetta sem stutta ráðstefnu fyrir almenning þar sem við ræðum þessi krabbamein á mannamáli. Meðal annars mun Katrín Kristjánsdóttir krabbameinslæknir ræða ótímabær tíðahvörf eftir krabbameinsmeðferð og Áslaug Kristjánsdóttir, kynfræðingur og hjúkrunarfræðingur, ræða tíðahvörf og kynlíf. Svo munum við fá að heyra reynslusögur sjúklinga og að lokum verða pallborðsumræður þar sem fólki býðst að spyrja fyrirlesarana og einn sjúklinganna að því sem því liggur á hjarta.“

Sigrún Arnardóttir segir að erfiðlega geti reynst að greina krabbamein …
Sigrún Arnardóttir segir að erfiðlega geti reynst að greina krabbamein í eggjastokkum. mbl.is/Árni Sæberg

Er umræðan um þessar tegundir krabbameins feimnismál? 

„Já, ég myndi segja að hún geti verið það. Það getur verið erfitt að segja frá því að maður hafi þurft að láta fjarlægja innri kynfæri, eins og til dæmis leg eða eggjastokka. Og ef konur fá þetta ungar tekur það auðvitað frá þeim þann möguleika að eignast börn. Þannig að þetta getur verið viðkvæmt mál. Ég held að þetta sé líka svolítið feimnismál af því að þetta er tengt kynfærunum og þessu svæði,“ segir Sigrún. Hún nefnir sem dæmi leghálskrabbamein sem tengist veirusýkingu, svokallaðri HPV-veiru, sem getur smitast við kynmök. 

„Leghálskrabbamein er því meira tengt kynhegðun og greinist oft hjá konum á aldrinum 35 til 40 ára. Þær hafa þá kannski smitast af HPV-veirunni í kringum tvítugt sem hefur svo þróast á tíu til fimmtán árum yfir í alvarlegar frumubreytingar og krabbamein.“

Sigrún segir krabbamein í eggjastokkum og legi aðallega greinast hjá konum sem komnar séu yfir fimmtugt, eftir tíðahvörfin. Það sé þó ekki skimað fyrir því. 

„Það hefur ekkert skimunarpróf reynst nógu sértækt en ef við sjáum til dæmis óeðlilega stækkun á eggjastokk getum við tekið blóðprufu sem svo segir til um hvort ástæða sé til að skoða málið betur.“

Ráðstefnan er haldin í dag, 4. september, kl. 17:00-18:30 í húsnæði Krabbameinsfélagsins í Skógarhlíð 8. Hún er opin öllum og aðgangur er ókeypis en hægt er að skrá sig hér.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert