Kom grútskítugum haferni til bjargar

Veiðimaðurinn Snorri Rafnsson, einnig þekktur sem Vargurinn, hlúir nú að haferni á heimili sínu, sem hann handsamaði í Krossavík nærri Hellissandi á Snæfellsnesi í dag. Hann ætlar að keyra með örninn til Reykjavíkur á morgun og láta hann í umsjá Náttúrufræðistofnunar.

Snorri var að viðra hundana sína er hann sá örninn, sem er 17 ára gamall og var merktur sem ungi í Breiðafirði árið 2002. Roskið merkisdýr, sem var í vanda statt, en haförninn var blautur af grút eftir að hafa gætt sér á hvalshræi sem er að finna þarna í víkinni.

Mynd sem Snorri birti af sér og erninum á Snapchat …
Mynd sem Snorri birti af sér og erninum á Snapchat í dag. Ljósmynd/Snorri Rafnsson

„Ég labbaði aðeins nær og sá að það var eitthvað að honum. Ég hélt að hann myndi fljúga í burtu,“ segir Snorri í samtali við mbl.is, og bætir við að fitan úr hvalshræinu hafi „fyllst í fjaðrirnar“ á erninum og að það verði oft til þess að þessi voldugu dýr drepist.

„Þetta gerir það að verkum að þeir geta ekki flogið, svo bara byrja þeir að blotna og hrörna niður,“ segir Snorri, sem handsamaði annan örn í byrjun desember árið 2017. Sá var mun yngri, eða á fyrsta ári og var að lokum svæfður í maí síðastliðnum, þar sem hann braggaðist ekki nægilega eftir að Snorri hafði komið honum í umsjá Náttúrufræðistofnunar, sem vistaði hann síðar í Húsdýragarðinum í Laugardal.

Í grennd við örninn var þjóðgarðsvörður í Snæfellsjökulsþjóðgarði, sem hafði verið í sambandi við fuglafræðinga vegna hafarnarins, en ekki treyst sér til að fara og handsama hann. Snorri gekk því í verkið, eftir samtal við þjóðgarðsvörðinn og eftir að hafa ráðfært sig við fuglasérfræðinga hjá Náttúrufræðistofnun.

Nú er haförninn í góðu yfirlæti á heimili Snorra, í rúmgóðu búri í bílskúrnum, eins og sjá má fjölmörgum myndskeiðum á Snapchat-aðgangi hans.

Hægt er að sjá hafarnar-ævintýri Snorra í dag á Snapchat, …
Hægt er að sjá hafarnar-ævintýri Snorra í dag á Snapchat, undir nafninu Vargurinn.

„Ég bruna beint með hann í bæinn á morgun og þeir [hjá Náttúrufræðistofnun] taka á móti honum, þrífa hann og sleppa honum svo bara aftur eins fljótt og hægt er, á svipaðar slóðir,“ segir Snorri, sem telur að fyrir utan grútinn ami ekkert að erninum sem hann fangaði í dag og reiknar með að hann verði kominn aftur á ról innan skamms.

Snorri er vinsæll á samfélagsmiðlum og þúsundir fylgjast með honum á Snapchat á hverjum degi, en hann er oft úti í náttúrunni á Snæfellsnesi við minkaveiðar. Hann er einnig á Instagram, undir nafninu thewestviking.

Attachment: "vargur" nr. 11018

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert