„Aldur vélarinnar ekkert með atvikið að gera“

Mikill viðbúnaður var á Keflavíkurflugvelli vegna atviksins.
Mikill viðbúnaður var á Keflavíkurflugvelli vegna atviksins. Ljósmynd/Aðsend

Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair, segir skipta mestu máli að engin slys hafi orðið á fólki þegar lendingarbúnaður gaf sig í vél félagsins eftir lendingu á Keflavíkurflugvelli í dag. Vélin, sem var að koma frá Berlín um klukkan hálf fjögur, lenti eðlilega en lendingarbúnaður virðist hafa gefið sig í kjölfarið.

Bogi segir skipta mestu máli að allir hafi sloppið ómeiddir …
Bogi segir skipta mestu máli að allir hafi sloppið ómeiddir frá atvikinu. mbl.is/Árni Sæberg

„Ein af vélum okkar var að koma inn til lendingar frá Berlín með 160 farþega og 6 manna áhöfn. Aðflugið og lending voru eðlileg en skömmu eftir lendingu þá virðist lendingarbúnaðurinn hægra megin gefa sig þannig hún dettur í raun niður á hreyfilinn hægra megin og rennur aðeins eftir flugbrautinni,“ segir Bogi um atvikið.

Ljósmynd/Aðsend

„Sem betur fer þá slasaðist enginn og áhöfnin stóð sig mjög vel við þessar aðstæður. Eftir klukkutíma voru allir komnir frá borði og Rauði krossinn tók á móti farþegunum í flugstöðinni og bauð þeim áfallahjálp.“ Bogi segir einhverja farþega hafa þegið áfallahjálp en mikil ró hafi verið yfir farþegunum miðað við aðstæður.

Hann getur ekki sagt hvað verður til til þess að lendingarbúnaður gefur sig með þessum hætti en atvikið er til rannsóknar hjá rannsóknarnefnd samgönguslysa. „Við erum í samstarfi við rannsóknarnefndina og málið er í þeirra höndum, eins og alltaf er þegar svona gerist.“

Rauðu hættu­stigi var lýst yfir á flug­vell­in­um vegna at­viks­ins og sam­hæf­ing­ar­stöð al­manna­varna­deild­ar rík­is­lög­reglu­stjóra virkjuð. 

Geta flogið mun lengur en í 19 ár 

Vélin sem um ræðir, TF FIA, er framleidd árið 2000 og er því 20 ára gömul. Bogi segir bæði eldri og yngri vélar í flota Icelandair og almennt séð séu vélar sem þessar byggðar til að fljúga mun lengur en í 19 ár.

Ljósmynd/Aðsend

„Samkvæmt þeim upplýsingum sem við höfum þá var það lendingarbúnaður, hjólabúnaður, sem gaf sig. Í öllum flugvélum er skipt um lendingarbúnað á ákveðnu árabili. Miðað við þær upplýsingar sem við höfum þá hefur aldur vélarinnar ekkert með atvikið að gera. Öryggið er númer eitt, tvö og þrjú hjá okkur. Allar okkar vélar, sem eru í okkar leiðakerfi, eru byggðar til þess að fljúga mun lengur en í 19 ár. Viðhaldsskipulag er miðað við það. Vélar fara í viðhald og skoðanir reglulega.“

Fókusinn fyrst og fremst á farþega og áhöfn 

Bogi segir fókusinn fyrst og fremst hafa verið á farþegana og áhöfnina í dag og ekkert sé því farið að skoða hvort hægt sé að gera við vélina. Hann telur hana þó ekki ónýta. Vélin er enn á flugbrautinni þar sem rannsóknarnefnd samgönguslysa er með hana til skoðunar.

Bogi segir öll flugatvik litin alvarlegum augum en áhafnir séu þjálfaðar til að bregðast við óvæntum atvikum sem þessum. „Áhöfnin stóð sig mjög vel og það er mikilvægt. Aðalatriðið er að allir sluppu ómeiddir frá þessu.“

Farþegar fluttir frá borði með aðstoð viðbragðsaðila.
Farþegar fluttir frá borði með aðstoð viðbragðsaðila. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert