Vilja fjölskyldumeðferðarþjónustu

Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, og fulltrúar starfshópsins við …
Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, og fulltrúar starfshópsins við afhendingu skýrslunnar. Ljósmynd/Stjórnarráðið

Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, tók í dag við tillögum frá starfshópi sem hann hafði falið að að kortleggja og skilgreina þjónustuþörf fyrir gerendur í ofbeldismálum og þá sem eru í hættu á að fremja ofbeldisbrot. Þetta kemur fram á vef Stjórnarráðsins

Verkefni starfshópsins var einnig að leggja fram tillögur um viðeigandi úrræði og jafnframt með hvaða hætti mætti efla forvarnir og fræðslu með það að markmiði að koma í veg fyrir ofbeldisbrot. 

Meðal þess sem starfshópurinn leggur til er að boðið verði upp á sértæka þjónustu fyrir einstaklinga sem vilja leita sér hjálpar í kjölfar brota eða telja sig vera í hættu á að beita ofbeldi, en til eru fyrirmyndir af sambærilegum verkefnum erlendis frá sem hafa reynst vel. Lagt er til að sett verði á fót fjölskyldumeðferðarþjónusta fyrir börn og fullorðna þar sem hægt verður að leita þjónustu og ráðgjafar þar sem markmiðið er að bregðast við óæskilegri hegðun og gjörðum á upphafsstigum, áður en mál verða þyngri og minnka þannig álag á fjölskyldur, sem og að draga úr þörf fyrir mun kostnaðarsamari úrræði. 

„Ég fagna þessum tillögum því það hefur lengi verið kallað eftir auknum úrræðum fyrir þá einstaklinga sem beita ofbeldi. Við munum núna skoða hvernig við getum unnið þessar tillögur áfram og með tilliti til annarra verkefna á þessu sviði sem nú þegar er verið að vinna að á vettvangi félagsmálaráðuneytisins,“ sagði Ásmundur Einar af þessu tilefni og þakkaði hópnum fyrir vel unnin störf. 

Formaður hópsins var Sólveig Fríða Kjærnested, sviðsstjóri meðferðarsviðs hjá Fangelsismálastofnun. Starfshópurinn var skipaður fulltrúum frá barnavernd, félagsþjónustu, heilsugæslu o.fl., en starfshópurinn leitaði einnig til sérfræðinga sem þekkja vel til í umræddum málaflokki í þeim tilgangi að kortleggja stöðuna betur og fá betri mynd af því hvar aðgerða er helst þörf. 

Hér er skýrslan: Tillögur starfshóps um fjölbreyttari úrræði fyrir gerendur í ofbeldismálum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert