„Gríðarlegt reiðarslag fyrir ferðaþjónustuna“

Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar.
Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar. mbl.is/Kristinn Magnússon

Framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar segir að ákvörðun Bandaríkjanna um að setja á ferðabann til landsins frá Evrópu vegna kórónuveirunnar sé gríðarlegt reiðarslag fyrir ferðaþjónustuna og efnahagslíf Íslands.

Hann nefnir í því samhengi að ferðaþjónustan nemur tæpum 10% af landsframleiðslu. Um 34% af gjaldeyristekjum ferðaþjónustunnar koma frá Bandaríkjamarkaði. „Þannig að þetta er gríðarlegt högg,“ segir Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar.

Hann segir að ákvörðun Bandaríkjanna hafi komið sér mjög á óvart og vonar að þarlend stjórnvöld sjái að sér.

Minni spurn er eftir ferðum til Íslands í mars og apríl. Að sögn Jóhannesar nota mörg fyrirtæki þennan tíma til að þrauka fram á háannartímann í sumar og þess vegna kemur það sér ekki síður illa ef stór hluti af viðskiptunum í þessu mánuðum fellur niður í heilu lagi.

Ferðamenn í Reykjavík í byrjun mánaðarins.
Ferðamenn í Reykjavík í byrjun mánaðarins. mbl.is/Kristinn Magnússon

Óttast uppsagnir 

Spurður út í uppsagnir í íslenskri ferðaþjónustu, bæði vegna ferðabannsins til Bandaríkjanna og þeirrar þróunar sem hefur átt sér stað undanfarið vegna veirunnar, segir hann ljóst að launakostnaður ferðaþjónustufyrirtækja, rétt eins og annarra fyrirtækja, sé stærsti einstaki kostnaðarliðurinn.

„Það er ekki um neinn kost að velja fyrir fyrirtæki ef menn ætla að lækka kostnað til að vega upp á móti miklu tekjutapi en að segja upp fólki. Ég vona að til þess þurfi ekki að koma í stórum stíl,“ greinir hann frá og nefnir að miðað við umhverfið á Íslandi sé mjög erfitt fyrir fyrirtæki að mæta svona stöðu öðruvísi en að horfa til launakostnaðar.

Samtök ferðaþjónustunnar hafa verið í samskiptum við fjölmarga aðila síðustu vikur, bæði félagsmenn og ýmsar stofnanir. „Það mun halda áfram. Það er mikilvægt að menn leggist á eitt. Það er enginn uppgjafartónn hvorki í ferðaþjónustunni né öðrum. Þetta eru aðstæður til að takast á við og ég hef fulla trú á að við gerum það af styrk saman.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert