Reykjanesbraut lokað vegna umferðaróhapps

Af Facebook-síðu lögreglunnar á Suðurnesjum

Reykjanesbraut hefur verið lokað vegna umferðaróhapps á milli Voga og flugstöðvar Leifs Eiríkssonar. Samkvæmt upplýsingum frá Brunavörnum Suðurnesja var þriggja bíla árekstur skammt frá Vogaafleggjara og var einn fluttur á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja.

Í færslu á Facebook-síðu lögreglunnar á Suðurnesjum frá því um klukkan 16 kemur fram að gríðarlega erfið færð er innanbæjar í Reykjanesbæ og fólki á fólksbílum bent á að vera ekki á ferðinni. „Eitthvað er um að ökumenn séu að festa bifreiðar í sköflum og er umferð mjög þung sökum þess, sérstaklega í efri hverfum eins og Ásbrú. Öll snjóruðningstæki eru á ferðinni á svæðinu en erfitt er að ryðja þar sem mikið skefur,“ segir á Facebook. 

Enn er lokað um Hellisheiði, Þrengsli og Suðurstrandarveg. Mjög blint er á Kjalarnesi, því hefur veginum verið lokað.

Kort/Vegagerðin
Ljósmynd/Lögreglan
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert