„Ég bjóst ekki við neinu“

Víðir og Þórólfur á upplýsingafundi almannavarna í dag.
Víðir og Þórólfur á upplýsingafundi almannavarna í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir segir þróun heimsfaraldurs kórónuveirunnar velta á því hvernig gangi að hefta útbreiðsluna í einstaka löndum. 

„Þetta fer eftir því hvernig mönnum tekst til í einstaka löndum, í stórum löndum eins og Bandaríkjunum. Þetta byrjaði þar helst í New York-ríki, New York-borg, hvað myndi gerast ef þetta færi til annarra stórra borga? Hvernig standa menn að smit- og sýkingarvörnum í þessum stóru löndum? Yfirleitt er útbreiðsla sýkingarinnar mest á svæðum og fer síðan á önnur þannig að það gæti dregið úr þessu á þann hátt,“ segir Þórólfur í samtali við mbl.is. 

Aðspurður hvað sér finnist um ummæli Donald Trump Bandaríkjaforseta sem sagði sýnatöku vegna veirunnar tvíeggja sverð, segir Þórólfur vandamálið ekki hverfa þó að sýnatöku sé hætt.

„Þetta er ágætisleið,“ segir Þórólfur hæðinn. „Að taka ekki sýni og þá finnur þú ekki sjúkdóminn og getur sagt að hann sé ekki mjög útbreiddur. En þú losnar ekki við vandamálið með því.“ 

Þórólfur segist ánægður með hvernig landamæraskimun á Keflavíkurflugvelli hefur farið af stað. 

„Ég bjóst ekki við neinu, ég vissi þetta bara ekki. Þess vegna var mjög mikilvægt að fá þekkinguna á því hvað er mikið um smit miðað við ferðamenn. Það er kannski erfitt að draga ályktanir frá svona stuttu tímabili og auðvitað geta komið einhverjir tveir, þrír illa smitaðir úr einni vél og gert einhvern usla. En eins og er er þetta góð vísbending.

„Við vitum að það er mjög mismunandi mikið tekið af prófum og hér á Íslandi hafa verið margir einkennalausir sem hafa greinst með veiruna svo það kemur kannski ekki mikið á óvart að það séu hérna einhverjir að greinast sem hafa ekkert verið veikir,“ segir Þórólfur. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert