Andlát: Eysteinn Þorvaldsson

Eysteinn Þorvaldsson.
Eysteinn Þorvaldsson.

Eysteinn Þorvaldsson, prófessor emeritus í íslenskum bókmenntum, lést á hjúkrunarheimilinu Skjóli í Reykjavík 8. september sl., 88 ára að aldri.

Eysteinn fæddist 23. júní 1932 í Hafnarfirði. Hann bjó þar fyrstu árin með foreldrum sínum, Þorvaldi Guðmundssyni og Lovísu Aðalbjörgu Egilsdóttur, en fluttist svo með þeim austur fyrir fjall en þar voru þau um árabil bændur á Syðri-Gróf í Flóa, en settust síðar að á Selfossi. Eysteinn gekk í Héraðsskólann að Laugarvatni og hóf menntaskólanám þar en útskrifaðist sem stúdent úr MR árið 1954.

Eysteinn stundaði nám í fjölmiðlafræði við háskólann í Leipzig í Austur-Þýskalandi, á síðari hluta sjötta áratugarins og starfaði um hríð sem blaðamaður við Þjóðviljann eftir að hann sneri heim. Hann tók einnig snemma að fást við kennslu og starfaði við Réttarholtsskóla og Gagnfræðaskóla Garðabæjar. Hann var fréttastjóri Þjóðviljans 1973-1974, en gerðist síðan íslenskukennari í menntaskóla, fyrst við Menntaskólann við Tjörnina og síðan MH. Meðfram kennslu stundaði Eysteinn nám í íslensku og þýsku við Háskóla Íslands og lauk þaðan cand.mag.-prófi í íslenskum bókmenntum árið 1977, en þá var hann einnig farinn að kenna íslenskar bókmenntir við Kennaraháskóla Íslands þar sem hann var síðar fastráðinn og varð þar prófessor árið 1993.

Eftir Eystein liggur fjöldi fræðiritgerða en einnig bækurnar Atómskáldin (1980), Ljóðalærdómur (1988), Ljóðaþing (2002) og Grunað vængjatak. Um skáldskap Stefáns Harðar Grímssonar (2010). Hann ritstýrði nokkrum ljóðasöfnum, m.a. í tvígang úrvali ljóða eftir ung skáld, og hann skrifaði ritdóma fyrir Þjóðviljann um árabil, einkum um ljóðabækur. Hann var einnig ötull þýðandi og þýddi m.a. lungann af sagnaverkum Franz Kafka ásamt Ástráði Eysteinssyni.

Eysteinn var virkur í íþróttahreyfingunni frá unga aldri, bæði sem iðkandi og stjórnandi. Sem ungur maður stundaði hann íslenska glímu en færði sig síðar yfir í júdó og var einn af frumkvöðlum þeirrar íþróttar á Íslandi og fyrsti formaður Júdósambands Íslands. Kominn undir sextugt gerðist hann ötull víðavangshlaupari og keppti í fjölmörgum hlaupum næstu tvo áratugina.

Börn Eysteins eru Drífa, Ástráður, Heiður, Oddgeir, Björg og Úlfhildur.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert