Froskar í Garðabæ og grænn marhnútur

Froskur. Ekki er talin hætta á að tegundin nái auðveldlega …
Froskur. Ekki er talin hætta á að tegundin nái auðveldlega meiri útbreiðslu hér og upplýsingar eru af skornum skammti. Ljósmynd/Wikipedia.org

Froskar hafa sést á litlu svæði í Garðabæ síðan 2017 samkvæmt fréttum og samfélagsmiðlum, að því er fram kemur í nýrri skýrslu um framandi tegundir. Þar kemur jafnframt fram að Náttúrufræðistofnun Íslands hafi ekki fengið eintak af tegundinni til þess að greining sé örugg.

Útbreiðsla froskanna virðist afar takmörkuð og að mestu bundin við tvær íbúðagötur og talið líklegt að lítil tjörn sé á svæðinu. Ekki er talin hætta á að frosktegundin nái auðveldlega meiri útbreiðslu hérlendis en það geti þó breyst ef einstaklingar komast í stærri eða tengd vatnakerfi, segir í skýrslunni.

Búrbobbi. Tegundin er flokkuð sem framandi og ágeng, en búrbobbi …
Búrbobbi. Tegundin er flokkuð sem framandi og ágeng, en búrbobbi fannst fyrst hér á landi í Fossvogslæk árið 1978. Ljósmynd/Wikipedia.org

Skýrslan er tekin saman af Náttúrufræðistofnun fyrir Umhverfisstofnun og fjallar um framandi tegundir í straumvötnum, stöðuvötnum og strandsjó. Alls er fjallað um 36 framandi tegundir og af þeim eru sex taldar vera ágengar tegundir. Þær eru alaskalúpína, skógarkerfill, minkur, spánarsnigill, búrbobbi og húshumla.

Úr fiskabúrum

Búrbobbi er sniglategund sem lifir í ferskvatni og finnst bæði í rennandi vatni og tjörnum. Hann fannst fyrst hérlendis í Fossvogslæk árið 1978 og finnst nú á höfuðborgarsvæðinu, Suðurnesjum og í Ölfusi en er bundinn við jarðhitaáhrif eða volgt frárennsli. Talið er að tegundin hafi borist út í náttúruna hérlendis úr fiskabúrum. Búrbobbi er ein af fáum tegundum hérlendis sem nú þegar hafa verið flokkaðar sem framandi ágeng tegund og því er fullt tilefni til þess að vel sé fylgst með útbreiðslu hans og áhrifum á lífríki hérlendis, segir í skýrslunni.

Grænn marhnútur. Hér á landi var tegundin fyrst staðfest við …
Grænn marhnútur. Hér á landi var tegundin fyrst staðfest við Vatnsleysuströnd 2005 og ári síðar fannst hún á Seltjarnarnesi. Ljósmynd/Wikipedia.org

Af framandi tegundum í strandsjó er grænn marhnútur nefndur til sögunnar. Hér við land var tegundin fyrst staðfest við Vatnsleysuströnd 2005 og ári síðar fannst hún tvisvar í fjörupollum á Seltjarnarnesi. Grænn marhnútur er ekki flokkaður sem ágeng tegund í öðrum löndum og hér við land er útbreiðsla hans hæg. Því er fremur ósennilegt að hann muni flokkast sem ágeng tegund hér á næstunni nema umhverfisbreytingar eigi sér stað.

Innflutningur ekki leyfður

Sérstaklega er fjallað um kyrrahafsostrur í skýrslunni og innflutning á ostrum vegna ræktunar í Skjálfandaflóa. Árið 2019 var beiðni um ostruinnflutning hafnað af Umhverfisstofnun með vísan til neikvæðrar umsagnar sérfræðinganefndar um framandi lífverur og rannsókna á ágengni tegundarinnar í nágrannalöndum okkar.

Sagt er að helstu rök sérfræðinganefndarinnar hafi byggst á að hætta geti verið á að ostrur nái að fjölga sér og festa rætur fyrir norðan land og ógna líffræðilegri fjölbreytni á svæðinu. Mun fleiri umsóknum um innflutning á ostrum hafi verið hafnað á sambærilegum grundvelli. 

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 22. janúar. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert