Bílasala dróst saman um 11,3% í mars

Bílasala hefur dregist saman frá því í fyrra.
Bílasala hefur dregist saman frá því í fyrra. mbl.is/Kristinn Magnússon

Sala nýrra fólksbíla dróst saman um 11,3% í mars frá sama mánuði í fyrra. Alls voru 956 fólksbílar skráðir í mánuðinum. Sala á fyrstu þremur mánuðum ársins var 15,8% minni en á sama tímabili í fyrra, eða 2.089 bílar. Þetta kemur fram í samantekt Bílgreinasambandsins.

Mestur er samdrátturinn vegna bíla til bílaleiga, en samdráttur þar er 45,6% milli ára. Keyptu bílaleigur alls 300 bíla á fyrstu þremur mánuðum ársins. Hjá öðrum fyrirtækjum var samdrátturinn 3%, en þau keyptu 513 bíla. Bílasala til almennings dróst saman um 8,3% milli ára og hafa þeir keypt 1.374 bíla það sem af er ári.

Hlutfall svokallaðra nýorkubíla (rafmagns, tengiltvinn, blendings og metan) eykst milli ára en slíkir bílar eru 67,4% allra seldra fólksbíla það sem af er ári, samanborið við 59,9% á sama tíma á síðasta ári. Hlutur rafmagnsbíla er 25,7% af heildarbílasölu, tengiltvinn 25,9% og blendingsbíla 15,8%.

Mest selda tegundin þar sem af er ári er Toyota en 297 slíkir bílar hafa verið seldir á árinu. Þar á eftir kemur Kia með 275 bíla og Tesla með 140 bíla. Mest selda einstaka gerðin er einmitt Tesla Model 3 en 133 slíkir bílar hafa selst á árinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert