Sláandi að lenda í þessu aftur

Valdimar Víðisson skólastjóri Öldutúnsskóla.
Valdimar Víðisson skólastjóri Öldutúnsskóla.

Skólastjóri Öldutúnsskóla viðurkennir að hann sé farinn að þekkja smitrakningarferli almannavarna betur en hann kærir sig um.

62 nemendur í 4. bekk skólans og þrír starfsmenn hafa verið sendir í sóttkví vegna smits sem kom upp hjá nemanda í árganginum. Þetta er í fjórða sinn sem smit kemur upp innan skólans, en í lok síðasta mánaðar þurftu 200 nemendur á unglingastigi að fara í sóttkví.

Smitin eru ótengd, en nemandinn í fjórða bekk smitaðist utan veggja skólans.

Alls eru 650 nemendur í Öldutúnsskóla og starfsmenn um 100.
Alls eru 650 nemendur í Öldutúnsskóla og starfsmenn um 100. Ljósmynd/Sverrir Vilhelmsson

„Ég viðurkenni að það var dálítið sláandi að fá annað smit á svona stuttum tíma. En við erum farin að þekkja þetta,“ segir Valdimar Víðisson, skólastjóri Öldutúnsskóla, í samtali við mbl.is. Sem betur fer hafi þó ekki þurft að senda jafnmarga í sóttkví og síðast. 

Einungis nemendur í 4. bekk sem og þrír starfsmenn skólans þurfa, sem fyrr segir, að fara í sóttkví. Eru áhrifin því takmörkuð á aðra nemendur skólans. Í pósti sem Valdimar sendi öllum foreldrum og starfsmönnum í dag eru þeir þó hvattir til þess að fara sérstaklega gætilega næstu daga og leita í sýnatöku við minnstu einkenni.

Alls eru um 650 nemendur í Öldutúnsskóla og um 100 starfsmenn, en skólinn er í Hafnarfirði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert