Bæta við fimmta sóttkvíarhótelinu í Reykjavík

Fosshótel sóttvarnarhús.
Fosshótel sóttvarnarhús. mbl.is/Árni Sæberg

Að sögn Gylfa Þórs Þorsteinssonar, forstöðumanns farsóttarhúsa Rauða krossins, verður Hótel Rauðará bætt við sem sóttkvíarhóteli á morgun en það hefur áður verið notað undir innanlandssóttkví.

Gylfi gerir ráð fyrir að núverandi sóttkvíarhótel fyllist á morgun enda sé von á fjölda farþega til landsins. Hins vegar er ekki vitað hversu margir koma á hótelin fyrr en farþegarnir eru komnir í rútu að sögn Gylfa.

„Um 150 gestir komu inn í dag og það gæti verið annað eins á morgun og jafnvel meira,“ segir Gylfi.

Gylfi Þór Þorsteinsson, forstöðumaður farsóttarhúsa Rauða krossins.
Gylfi Þór Þorsteinsson, forstöðumaður farsóttarhúsa Rauða krossins. mbl.is/Sigurður Bogi

Þegar mbl.is talaði við Gylfa í dag voru 472 einstaklingar á sóttkvíarhótelum í Reykjavík. 284 á Fosshóteli Reykjavík, 19 á Fosshótel Lind, 91 á Hótel Stormi og 98 á Hótel Kletti. Hótel Rauðará verður því fimmta sóttkvíarhótelið. Auk þessu dvelja 19 manns á sóttkvíarhóteli á Egilsstöðum.

Fleiri lönd bætast á rauða listann

Gylfi segir að ferðamönnum fari fjölgandi en bendir einnig á að á þriðjudaginn bætist inn lönd á rauða listann og því verða sóttvarnarhúsin að vera undir það búin að geta tekið á móti fleira fólki.

Á þriðjudaginn tekur gildi ný skilgreining sóttvarnalæknis um svæði og lönd sem talin eru vera hááhættusvæði. Farþegar sem koma frá landi eða svæði þar sem nýgengi smita er 700 eða meira þurfa skilyrðislaut að fara í sóttkví í sóttvarnahúsi. Farþegar sem koma frá landi þar sem nýgengi smita er 500 – 699 og hlutfall jákvæðra sýna er undir 5% skulu sæta sóttkví í sóttvarnahúsi en eiga þó þess kost að sækja um undanþágu. 164 lönd og svæði falla undir þessa skilgreiningu.

Gylfi bendir hins vegar á að reyndar komi ekki margir frá mörgum þeirra landa sem falla undir skilgreininguna.

„En við þurfum samt sem áður að vera undir það búin að fullt af fólki komi engu að síður,“ segir Gylfi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert