Sakfelldur fyrir að bera skjöld, sverð og exi

Landsréttur í Kópavogi.
Landsréttur í Kópavogi. Hallur Már

Landsréttur  staðfesti í gær dóm Héraðsdóms Reykjaness yfir manni á fimmtugsaldri sem var sakfelldur fyrir þjófnað, hótanir, brot gegn lögreglulögum, gripdeild, eignaspjöll auk fíkniefna- og vopnalagabrota. 

Meðal vopnalagabrota mannsins má nefna sverðsburð í ágúst 2019 þar sem hann bar sverðið með sér í samskiptum við lögreglu. Þá neitaði maðurinn tveimur dögum seinna að sinna  fyrirmælum lögreglu um að láta frá sér tvo hnífa og skjöld. Að lokum voru fjögur sverð, tvær axir, loftskammbyssa, rafstuðsbyssa og níu hnífar gerð upptæk.

Stal vodka og sígarettum

Auk þessa gerðist maðurinn sekur um bæði þjófnað og gripdeild á ýmsum smærri munum eins og vodka-flöskum og sígarettupökkum. Manninum var að lokum gert að greiða ÁTVR 12.077 krónur ásamt vöxtum og 60.000 krónur í málskostnað. 

Manninum var gerð 8 mánaða fangelsisrefsing, þar af voru fimm mánuðir skilorðsbundnir til tveggja ára. Honum var gert að greiða 545.615 krónur í sakarkostnað.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert