Lengdur opnunartími vegna blóðskorts

Blóðgjafar þurfa nú að bóka komur sínar til blóðgjafar og …
Blóðgjafar þurfa nú að bóka komur sínar til blóðgjafar og gætt er að smitvörnum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Skortur er á blóði um þessar mundir hjá Blóðbanka Íslands en mikil eftirspurn hefur verið undanfarna daga. Þá hefur verið gripið til þess ráðs að  lengja opnunartímann í dag og bæta við opnunartíma á morgun en almenn blóðsöfnun fer yfirleitt ekki fram á föstudögum og laugardögum.

Sveinn Guðmundsson, yfirlæknir Blóðbankans segir ekki um neyðarástand að ræða, allir þeir sem þurfa blóð fá blóð, en þó sé mikilvægt að fá fleiri blóðgjafa til að tryggja það að nægilegar öryggisbirgðir séu til taks. Segir hann helgaropnunina ekki um einsdæmi að ræða en Blóðbankinn hefur áður þurft að grípa til þess ráðs. 

„Það sem gerist er að á síðustu 10 dögum kom tímabil með mikilli notkun af blóði af mörgum ástæðum. Það voru slys og stórar aðgerðir og þegar það raðast inn á svona stutt tímabil þá getur það gengið á öryggisbirgðir okkar.“

Segir hann mikilvægt að öryggisbirgðir séu tryggðar í ljósi þess að miklar sveiflur geta orðið á notkun. „Það mesta sem við höfum séð hér eru 100 til 150 einingar á einum sólarhring en það er sjaldgæft sem betur er. En við þurfum að hafa nægan viðbúnað til að geta brugðist við slíkum tilvikum.“

Sveinn vekur þó athygli á því að blóðgjafar þurfi að bóka tíma áður en þeir mæta en hægt er að gera það á heimasíðu stofnunarinnar.

Faraldurinn haft áhrif á blóðgjafir

Aðspurður segir hann eftirspurn af blóði ekki hafa aukist í heimsfaraldrinum. Þvert á móti hefur hún dregist saman um 10% í ljósi þess að minna er um valaðgerðir. Það sem hefur hins vegar haft áhrif er að starfsemi Blóðbankabílsins hefur lagst niður af sökum sóttvarnaráðstafana.

„Alveg frá upphafi Covid höfum við ekki getað notað Blóðbankabílinn okkar þar sem við höfum ekki alveg geta tryggt sóttvarnir. Þegar við lítum til baka þá höfum við verið að safna um það bil tvö þúsund einingum í bílnum á ári en það er svona 20% af heildinni.

Það eru byggðarlög í nágrenni Reykjavíkur sem við höfum ekki geta heimsótt þar sem eru mjög öflugar sveitir blóðgjafa. Þá vil ég helst nefna Suðurnes, Suðurland og Akranes. Þessir þrír staðir hafa á síðustu árum gefið okkur þúsund einingar á ári. Þannig að vitanlega hefur þetta orðið erfiðara yfir covid tímann þeirra hluta vegna.“

Sveinn segir íslenska blóðgjafa almennt hafa brugðist mjög vel við ákalli Blóðbankans í gegnum heimsfaraldurinn og komið og gefið blóð. „Þeir vita að blóðgjöf er lífgjöf og þetta eru sjúklingar á sjúkrahúsinu sem að eru annað hvort vegna langvarandi sjúkdóma eða eru að fara í stórar aðgerðir. Þetta eru einnig slys, þetta er tengt fæðingu barna. Blóðgjafir eru raunverulega hornsteinn þess að við getum rekið sjúkrahús um land allt.“

Vill leggja meiri áherslu á rekstur bílsins

Segir Sveinn nú skipta miklu máli að Blóðbankabílnum sé komið aftur í umferð sem fyrst en hann telur þó einnig að huga þurfi brátt að endurnýjun hans, enda um 19 ára gamlan bíl að ræða. Telur hann jafnvel þörf á tveimur bílum til þess að styrkja starfsemi Blóðbankans enn betur. Væri þá hægt að ná til enn fleiri blóðgjafa víða um landið.

„Þegar við horfum til lengri tíma er skynsamlegt að styrkja blóðsöfnun í bílnum, þó það kosti aukalega að halda úti bíl og starfsfólki sem að þessu nemur. Það er þjóðhagslega hagkvæmt því þú ert að koma til fólksins í staðinn fyrir að fólkið þurfi alltaf að keyra til Blóðbankans. Því er það þannig í flestum löndum sem við þekkjum til að öflug starfsemi er rekin með bílnum. Í sumum löndum er allt að 80% af blóðinu safnað með Blóðbankabílnum.“

Hefur Blóðbankinn óskað þess við fjárlagagerð á hverju ári í gegnum Landspítalann að fé verði lagt til þess að gera útboð á Blóðbankabíl. Það hefur þó ekki verið samþykkt til þessa dags. „En við erum að vona að við fjárlaga gerð núna að það komist í gegn.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert