Lyfjatengd atvik 1.573 í fyrra

Alma D. Möller landlæknir.
Alma D. Möller landlæknir.

Alls voru 11.474 skráð atvik í heilbrigðisþjónustu hérlendis á síðasta ári. Byltur voru algengustu skráðu atvikin en lyfjatengd atvik voru næstalgengust, eða 1.573 talsins, um 14%.

Þetta kemur fram í aðsendri grein Ölmu Möller landlæknis í Fréttablaðinu.

Hún segir líklegt að meðferð með svefnlyfjum og slævandi lyfjum eigi þátt í byltum, sérstaklega hjá ölduðum, en rætt verður um þessi mál á málþingi Landspítala á Degi byltuvarna 22. september. Almennt er talið að atvik í heilbrigðisþjónustu séu vanskráð.

„Lyfjatengd atvik eru því miður algeng og meðal algengustu atvika í heilbrigðisþjónustu á heimsvísu. Skýringar á því eru annars vegar víðtæk notkun lyfja og hins vegar sú að ferli lyfjameðferðar er afar flókið og felur í sér margvíslegar áhættur ef ekki er rétt staðið að varðveislu, ávísun, blöndun, skráningu, gjöf eða eftirliti, svo dæmi séu nefnd. Afleiðingar lyfjatengdra atvika geta verið skaðlegar og jafnvel banvænar,“ skrifar Alma.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert