Ætlar að ræða úrsögn úr ASÍ

Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar.
Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, segir það ljóst að nærveru hennar og félaga hennar sé ekki óskað á þingi Alþýðusambands Íslands og ekkert pláss fyrir þau þar inni.

Segir hún einnig ljóst að sambandið sé klofið. Nú verði rætt um það innan Eflingar hvort félagið segi sig úr ASÍ.

Þetta kom fram í beinni útsendingu Ríkisútvarpsins frá þinginu, en heimildir mbl.is herma að þinginu hafi nú verið frestað til klukkan tíu í fyrramálið.

Ræddu saman áður en þau gengu út

Sólveig sagði það samantekin ráð að yfirgefa þingið með samherjum sínum, þeim Ragnari Þór Ingólfssyni, formanni VR, og Vilhjálmi Birgissyni, formanni Starfsgreinasambandsins og Verkalýðsfélags Akraness. Það væri ljóst að þau hefðu rætt saman áður en gengið var út.

Sólveig Anna sakaði Ólöfu Helgu Adolfsdóttur, fyrrverandi varafomann Eflingar og frambjóðanda í forsetaembætti ASÍ, um að hafa rekið fámenna en hatramma andspyrnuhreyfingu og að ekki væri rétt að tala um deilur í því samhengi heldur skemmdarverkastarfsemi.

Mætir að sjálfsögðu ekki

Spurð um framtíðaráform hjá sér sem formanns Eflingar sagði hún að fram undan væri að ræða við stjórnina og trúnaðarráðið, og ræða það sem mestu máli skipti, sem væri kjarabaráttan fram undan.

Spurð hvort hún myndi mæta á þriðja og síðasta dag þingsins á morgun svaraði Sólveig Anna því til að hún myndi að sjálfsögðu ekki mæta.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert