MAST neitar að tjá sig

Forstjóri MAST segir að í öllum málum sem varðar dýravelferð, …
Forstjóri MAST segir að í öllum málum sem varðar dýravelferð, sem endi með vörslusviptingu, þá sé fylgt ströngu ferli dýravelferðarlaganna og stjórnsýslulaganna. Samsett mynd

Hrönn Ólína Jörundsdóttir, forstjóri Matvælastofnunnar, segir í skriflegu svari til mbl.is að ekki verði veittar frekari upplýsingar um mál Guðmundu Tyrfingsdóttur, bónda í Lækjartúni í Ásahreppi, en í tilkynningu frá MAST sagði að allir gripir bónda á Suður­landi hefðu verið aflífaðir vegna veikindafjarvista bóndans.

„Við getum því miður ekki veitt frekari upplýsingar um þetta mál þar sem við tjáum okkur ekki um einstaka mál eða forsendur fyrir ákvörðunum sem við tökum í málum einstaklinga,“ segir Hrönn.

Bætir hún við að í öllum málum sem varðar dýravelferð, sem endi með vörslusviptingu, þá sé fylgt ströngu ferli dýravelferðarlaga og stjórnsýslulaga.

„Við þurfum að uppfylla rannsóknarregluna, gæta að meðalhófi og tryggja að okkar viðbrögð séu málefnaleg og samræmd yfir landið,“ segir í svari Hrannar.

Skyldmenni bannaði fólki að aðstoða

Guðmunda var flutt á sjúkrahús í desember eftir að hún datt og fór úr axlarlið. Nágrannar hennar í sveitinni buðust til þess að sjá um bú Guðmundu á meðan hún þyrfti á að halda en skyldfólk hennar bannaði nágrönnum hennar að gera það, að því er fram kemur í frétt Vísis

Guðmunda dvelur nú á dvalarheimili á Hellu á meðan hún jafnar sig á meiðslunum en öllum dýrum hennar hefur verið slátrað eða þau aflífuð og þeim fargað.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert