Dúxaði og á leið í bifvélavirkjann

Óli Þorbjörn Guðbjartsson útskrifaðist úr FÁ með einkunnina 9,2. Hann …
Óli Þorbjörn Guðbjartsson útskrifaðist úr FÁ með einkunnina 9,2. Hann segist vera ánægður með að vera kominn með stúdentsskírteinið en hann er á leiðinni í bifvélavirkjanám í Borgarholtsskóla.

„Þetta eiginlega bara gerðist,“ segir Óli Þorbjörn Guðbjartsson, dúx Fjölbrautaskólans við Ármúla, spurður hvort hann hafi búist við því að dúxa.

Óli útskrifaðist í dag af viðskipta- og hagfræðibraut með ágætiseinkunnina 9,2. Hann stefnir nú í bifvélavirkjanám í Borgarholtsskóla.

„Ég er mjög heppinn að vera með svona gott bakland,“ segir Óli. Hann kveðst þakklátur fyrir þann stuðning sem hann hefur fengið frá foreldrum sínum, systur sinni og afa sínum. Ekki síst er hann ánægður með þá kennara sem hafa kennt honum í FÁ.

„Kennararnir í FÁ eru alveg frábærir og mjög góðir kennarar,“ segir hann og nefnir sérstaklega stærðfræðikennara sinn, Moniku.

Mörg járn í eldinum

Óli er frá Selfossi og var fyrstu tvö ár framhaldskólagöngu sinnar í Fjölbrautaskóla Suðurlands, þar sem var einnig á viðskipta- og hagfræðibraut.

Hann skipti yfir í FÁ þegar fjölskyldan flutti til Reykjavíkur en nú býr hann í Vatnsmýrinni. Hann tók einnig þrjá fjarnámsáfanga í Verslunarskólanum.

Óli Þorbjörn Guðbjartsson dúx.
Óli Þorbjörn Guðbjartsson dúx. Ljósmynd/Aðsend

„Ég hef mjög mikinn áhuga á kvikmyndagerð og tók þátt í Kvikmyndahátíð framhaldsskólanna í FÁ sem er haldin á hverju ári,” segir hann. „Mig langar að koma mér á framfæri í kvikmyndagerð í framtíðinni en eins og staðan er núna ætla ég að fara í bifvélavirkjann.“

Hann segist hafa fengið áhuga á bíl þegar hann keypti sér sinn fyrsta bíl stuttu eftir að hann flutti í borgina.

„Mig langar að kunna á bíla og mér finnst það nett að geta gert við sinn eigin bíl,“ segir hann. Hann stefnir því á að fara í bifvélavirkjanám í Borgarholtsskóla en síðan ætlar hann í háskólanám.

Planið var alltaf viðskiptafræði

„Planið var alltaf að fara í viðskiptafræði í Háskóla Íslands en eins og staðan er núna hljómar það miklu meira spennandi að læra á bíla,“ segir hann. Hann segist þó vilja gera eitthvað í framtíðinni sem tengist viðskiptum.

Hann segist vilja flytja til útlanda og kynnast annarri menningu. Hann skýtur því inn að hann hafi búið í bandaríkjunum í um eitt ár þegar hann var í 8. bekk í grunnskóla en nú vill hann aðallega fara til Evrópu og þá helst til Bretlands eða Írlands.

„Mín stefna var alltaf að fara í viðskiptafræði og taka Erasmus í Írlandi,“ segir hann. Óli segist að lokum vera afar sáttur með það að vera orðinn stúdent og lítur björtum augum fram á veginn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert