Fá tvo daga til viðbótar í Gullhömrum

Alls voru 17 af 25 verjendum viðstaddir fyrirtökuna í Héraðsdómi …
Alls voru 17 af 25 verjendum viðstaddir fyrirtökuna í Héraðsdómi Reykjavíkur. mbl.is/Árni Sæberg

Fyrirtaka í Bankastræti Club-málinu fór fram í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag. Alls eru 25 sakborningar í málinu en enginn þeirra var viðstaddur fyrirtökuna. Fjölmargir verjendur þeirra voru þó í héraðsdómi í dag.

Þar sem fjöldi sakborninga í málinu er fordæmalaus í héraðsdómi fer aðalmeðferð fram í veislusal í Gullhömrum í Grafarholti. Dómsalur héraðsdóms rúmar ekki alla sakborninga og verjendur málsins.

Til stóð að aðalmeðferð færi fram 25. til 29. september. Sigríður Hjaltested héraðsdómari greindi hins vegar frá því við fyrirtöku að dómurinn hefði óskað eftir því að hafa salinn í Gullhömrum lengur og fengið það staðfest í dag að tveir dagar hefðu verið gefnir til viðbótar.

Mun aðalmeðferðin þar með fara fram dagana 25. til 29 september og 2. og 3. október, mánudag og þriðjudag. Verður málflutningur því eftir helgina.

Um 50 skýrslutökur áætlaðar

Málið varðar stunguárás sem átti sér stað á Bankastræti Club í nóvember í fyrra þegar hópur grímuklæddra manna ruddist inn á skemmtistaðinn og réðst að þremur mönnum.

Alls voru 17 af 25 verjendum viðstaddir fyrirtökuna, en sumir þeirra voru einnig mættir fyrir hönd annarra verjenda. Þá voru réttargæslumenn brotaþola einnig viðstaddir, sem og Dagmar Ösp Vésteinsdóttir saksóknari, sem sækir málið.

Fyrirhugað er að teknar verði í kringum 50 skýrslutökur fyrir dómi og er gert ráð fyrir að það taki fimm daga. Endanlegur vitnalisti liggur ekki fyrir en samkvæmt drögum saksóknara verða teknar skýrslur af öllum 25 sakborningunum, auk 26 annarra, þar á meðal brotaþolum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert