Tveir stjórnendur Samskipa í stjórnum lífeyrissjóða

Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, bendir á tengsl lykilstjórnenda Samskipa …
Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, bendir á tengsl lykilstjórnenda Samskipa við lífeyrissjóðina. mbl.is/Kristinn Magnússon

Tveir af fyrrverandi stjórnendum Samskipa eru formenn stjórna lífeyrissjóða landsins. Þannig er Pálmar Óli Magnússon formaður stjórnar Birtu lífeyrissjóðs og Björgvin Jón Bjarnason formaður stjórnar Gildis lífeyrissjóðs.

Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, bendir á þetta í langri færslu á Facebook.

Björgvin var kosinn á ársfundi 2023 og Pálmar Óli tók við að nýju sem formaður á þessu ári.

„Þeir voru báðir lykilstjórnendur hjá Samskipum þegar brotin voru framin. Annar þeirra er með réttarstöðu sakbornings í einu grófasta samkeppnislagabroti Íslandssögunnar,“ segir Ragnar Þór í færslu sinni.

Litið til háttsemi sem kynni að rýra trúverðugleika

Tiltekur hann nokkur dæmi úr skýrslu Samkeppniseftirlitsins (SKE) sem stofnunin metur sem brot á samkeppnislögum og vísar til reglna um framkvæmd hæfnismats framkvæmdastjóra og stjórnarmanna lífeyrissjóða nr. 180/2013.

„7. gr.
Háttsemi. Framkvæmdastjórar mega ekki hafa sýnt af sér háttsemi, athöfn eða athafnaleysi, sem gefur tilefni til að draga megi í efa hæfni þeirra til að standa fyrir traustum og heilbrigðum rekstri eða að líkur séu til að þeir muni hugsanlega misnota aðstöðu sína eða skaða lífeyrissjóðinn.

Við matið er m.a. litið til háttsemi aðila sem kynni að rýra trúverðugleika hans og skaða orðspor lífeyrissjóðsins. Jafnframt er höfð hliðsjón af fyrri afskiptum Fjármálaeftirlitsins vegna starfa aðila eða vegna starfshátta eftirlitsskylds aðila sem hann var í forsvari fyrir eða bar ábyrgð á,“ vísar Ragnar til í færslu sinni. 

Uppfært 19:11 

Björgvin starfaði ekki hjá Samskipum á árunum 2008-2012 sem er það tímabil sem alvarlegt ólöglegt samráð er talið hafa verið á milli Samskip og Eimskip.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka