Sláturhús brann til grunna: Hundraða milljóna tjón

Húsið brann til kaldra kola að morgni ann­ars í pásk­um.
Húsið brann til kaldra kola að morgni ann­ars í pásk­um. Ljósmynd/Aðsend

Sláturhúsið í Seglbúðum í Landbroti er gjöreyðilagt eftir eld sem kom þar upp. Þetta staðfestir Bjarki V. Guðnason, slökkviliðsstjóri slökkviliðs Skaftárhrepps.

Húsið brann til kaldra kola að morgni annars í páskum.

Mikill vindur var þegar eldurinn kviknaði og varð húsið fljótt alelda. Slökkviliðið leitaði liðsinnis slökkviliðs Mýrdalshrepps en ekki var hægt að bjarga húsinu.

„Þetta var eldur sem ekki varð við ráðið,“ segir Bjarki í samtali við mbl.is.

Engan sakaði

Að sögn Bjarka hleypur tjónið á mörgum milljónum króna en um var að ræða fullbúið sláturhús með tilheyrandi tólum og tækjum. 

„Þetta var mannlaust hús sem stóð aðeins frá bænum. Eigendurnir urðu varir við reyk. Það varð enginn skaði á fólki en mikið tjón.“

Bútar fuku úr brennandi húsinu og kveiktu í nærliggjandi gróðri. 

„Eina sem við gátum gert var að minnka það sem fauk úr húsinu og kveikti í gróðri.“

Engin önnur mannvirki voru þó talin í hættu.

Tilfinningalegt tjón

Sláturhúsið var svokallað handverkssláturhús og var í eigu hjónanna Þórunnar Júlíusdóttur og Erlends Björnssonar. 

Í samtali við mbl.is segir Þórunn eiginmann sinn hafa farið út um morguninn og að hann hafi ekki orðið var við neitt. Þá fór sonur þeirra einnig út síðar sama morgun og sótti þar kjöt. Korteri síðar urðu þau var við mikinn reyk og hringdu í slökkviliðið.

„Þetta gerðist mjög hratt,“ segir Þórunn og tekur fram að sláturhúsið hafi hýst verkfæra- og vélageymslu, ásamt geymslu fjölskyldunnar. 

Þar hafi m.a. verið að finna dót frá börnum þeirra, útilegubúnað, svefnpoka, vöðlur, gönguskíði og svo lengi mætti telja. Engu varð bjargað.

Hún segir tjónið líklega hlaupa á hundruðum milljóna króna. Þá sé ótalið það tilfinningalega tjón sem fjölskyldan varð fyrir. 

„Þetta bara fuðraði upp.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka