Ástþór eyðir meiri fjármunum en stórfyrirtæki

Ástþór Magnússon lætur til sín taka á samfélagsmiðlum.
Ástþór Magnússon lætur til sín taka á samfélagsmiðlum. mbl.is/Árni Sæberg

Ein leið fyrir forsetaframbjóðendur til að auglýsa sig er að kosta auglýsingar á Facebook, þ.e. með því að kaupa þær af bandaríska stórfyrirtækinu Meta. Ástþór Magnússon forsetaframbjóðandi hefur varið á þeim miðli fleiri milljónum króna í auglýsingar.

Þegar gögn Facebook um auglýsingar eru skoðuð má sjá að á síðustu 90 dögum hefur Ástþór varið 6.027.222 krónum í pólitískar auglýsingar á Facebook.

Hefur hann gert það í gegnum Facebook-síðurnar Ástþór forseti, nuna.is og Ástþór Magnússon.

Hefur varið töluvert meiru í auglýsingar en stórfyrirtæki

Agnar Freyr Gunnarsson, deildarstjóri netmarkaðssviðs hjá Birtingahúsinu, segir að tölurnar sem um ræðir hjá Ástþóri, og ná yfir 90 daga, skáki auglýsingakostnaði stórfyrirtækja á Facebook.

„Það eru ekki mörg fyrirtæki – stórfyrirtæki - sem setja svona mikla peninga í þetta. Bara mjög fá,“ segir Agnar í samtali við mbl.is.

Þannig að Ástþór er að verja að meðaltali meiru í auglýsingar en stórfyrirtæki í landinu á þessum tímaramma?

„Já, töluvert meira. Það er eitt og eitt fyrirtæki sem er þarna, en hann er að setja töluvert meira í þetta.“

Agnar Freyr Gunnarsson, deildarstjóri netmarkaðssviðs hjá Birtingahúsinu.
Agnar Freyr Gunnarsson, deildarstjóri netmarkaðssviðs hjá Birtingahúsinu. Ljósmynd/Aðsend

Ver líklega milljónum í auglýsingar hjá Google 

Langmestum fjármunum hefur Ástþór varið í auglýsingar með Facebook-síðunni Ástþór forseti, eða 5.800.173 krónum. Þar á eftir kemur nuna.is þar sem hann hefur varið 200 þúsund krónum og svo Facebook-síðan Ástþór Magnússon þar sem hann hefur varið 27.049 krónum.

Ástþór hefur líka látið til sín taka á Google, aðallega með YouTube-auglýsingum. Ekki er hægt að sjá hver kostnaðurinn við auglýsingar hans er þar en þó má sjá að hann er með margar auglýsingar á þeim miðli.

„Varlega áætlað þá sér maður að Ásþór er að setja töluverða fjármuni í Google líka,“ segir Agnar.

Spurður hvort að um sé að ræða nokkrar milljónir sem Ástþór er að verja í auglýsingar á Google, segir Agnar:

„Það kæmi mér á óvart, miðað við tíðni og annað, að það sé ekki að hlaupa á svoleiðis tölum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert