Aðeins ein leið fær í Grindavíkurmálum

Grindvíkingar hafa átt við ramman reip að draga í vetur …
Grindvíkingar hafa átt við ramman reip að draga í vetur og orðið fyrir stórtjóni, andlegu sem veraldlegu. Þeir sitja nú margir hverjir fastir í eignakaupakeðjum og hefur verið rætt um að seljendur fasteigna hækki verðið um milljónir til að hagnast á ógæfu þeirra. Fasteignasali telur eina lausn borðleggjandi í málinu. mbl.is/Árni Sæberg

„Þetta er gríðarlega flókið verkefni sem [Fasteignafélagið] Þórkatla tekur á sig og þetta hefur aldrei verið gert áður,“ segir Hannes Steindórsson, löggiltur fasteignasali hjá fasteignasölunni Lind, í samtali við Morgunblaðið um gang fasteignamála Grindvíkinga og leggur til það sem hann telur vera einu tæku lausn málsins.

Örn Viðar Skúlason framkvæmdastjóri Þórkötlu ræddi við mbl.is í gær og gerði grein fyrir sjónarmiðum fyrirtækisins. Sagði hann það fullkomlega skiljanlegt að þolinmæði Grindvíkinga væru takmörk sett, en í mörg horn væri að líta, verkefnið í Grindavík væri flóknara en hefðbundin fasteignaviðskipti þar sem Þórkatla þyrfti að fást við 18 ólíka lánardrottna auk þess sem gæta yrði að því að lögunum væri fylgt.

Ekki bara fyrir Grindvíkinga

„Hugmyndafræðin var að þinglýsa rafrænt til að einfalda fyrir seljendur,“ segir Hannes fasteignasali. „Það er ekki hægt, þar er eitthvert flækjustig sem ég þekki ekki en samkvæmt þeim upplýsingum sem ég hef er hægt að þinglýsa kaupsamningi þar sem eru engin lán, en málið vandast þar sem eru áhvílandi lán frá bönkum og svo skilst mér að málið sé enn flóknara með lífeyrissjóðina,“ segir fasteignasalinn.

Hannes Steindórsson er löggiltur fasteignasali sem hefur fimm Grindvíkinga í …
Hannes Steindórsson er löggiltur fasteignasali sem hefur fimm Grindvíkinga í núverandi viðskiptavinahópi. Hann fer ekki í grafgötur með það sem hann telur einu lausnina í málefnum bæjarfélags sem varð illa úti í hamförum sem líklega mun ekki sjá fyrir endann á næstu árin. Ljósmynd/Aðsend

Þessi flöskuháls sé helsta vandamálið en eins og Hannes skrifaði á Facebook í gær er ekki hægt að láta fólk bíða lengur. „Ég veit sjálfur um fullt af fólki sem er búið að missa af eignum, þetta er ekki bara fyrir Grindvíkinga, það eru kannski fimm-sex eigna keðjur og allar hinar fjölskyldurnar eru líka að bíða. Lausnin er ekki til staðar, það er ekki hægt að þinglýsa þessu rafrænt í dag. Hvað á þá að gera?“ spyr Hannes.

Hann svarar spurningunni sjálfur og telur aðeins um eina lausn að ræða. „Fólkið vantar pening núna, það er að missa eignirnar núna, keðjurnar eru að slitna núna. Ríkið á Landsbankann. Af hverju getur Landsbankinn ekki brúað bilið í kannski fimm vikur svo að fólk sé ekki heimilislaust? Það er ekki eins og verið sé að taka einhverja áhættu, þessir peningar koma,“ segir Hannes.

En þetta er ekki þannig

„Þetta er eina lausnin, það er engin önnur lausn. Eftir þrjár vikur eru 200 Grindvíkingar til viðbótar að missa eignir sínar. Við getum ekki boðið upp á það eftir allan þann harmleik sem fólk hefur gengið í gegnum. Þetta er ekki flókið en um leið mjög flókið. Tæknin virðist ekki vera til staðar og þá er eina leiðin að brúa bilið með þessum hætti,“ heldur hann áfram.

Aðspurður kveður Hannes fimm Grindvíkinga vera í sínum viðskiptamannahópi og fimm mismunandi eignir þar undir. „Þeir eru allir í biðstöðu og vilja allir klára þetta. Þú ert kannski með fimm eigna keðju. Fyrsti aðilinn þarf að samþykkja mánaðarfrest, annar líka, og það þurfa allir að vera samstíga, fimm fjölskyldur, svo að þetta klikki ekki – sumir bara geta þetta ekki. Mín lokaorð eru bara þessi: Ef allir væru komnir með heimili og það væru engin vandamál þá skipti engu þótt peningarnir kæmu eftir einn eða tvo mánuði. En þetta er ekki þannig,“ segir Hannes Steindórsson fasteignasali að lokum.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert