Flokksskiptin til marks um lítilmennsku

Þorsteinn Sæmundsson, þingmaður Miðflokksins.
Þorsteinn Sæmundsson, þingmaður Miðflokksins. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Það mikilvægasta sem prýtt getur einn stjórnmálamann er heiðarleiki og traust.“ Þetta segir Þorsteinn Sæmundsson, þingmaður Miðflokksins í skoðanapistli sínum á vef Vísis í dag. Hann segir að flestir þeirra stjórnmálamanna sem hann hafi kynnst á sínum ferli búa yfir þessum eiginleikum en að innan um þá leynist rotin epli. Þá ýjar hann einnig að því að flokkskipti Birgis Þórarinssonar séu til marks um lítilmennsku.

„Fáir eru þó þeir sem vísvitandi ganga til leiks með blekkingar og svik sem eina farangurinn. Einstaklingar sem hafa svo lágan siðferðisþröskuld að þeir treysta sér til að lauma sér inn á þing með hjálp heiðarlegs fólks sem hefur lagt á sig ómælda vinnu og lagt til fé svo að framboðið mætti takast,“ segir Þorsteinn í pistlinum.

Boginn nagli verði aldrei sem nýr þó réttur sé

Sviksemi af þessum toga sé þó því miður fylgifiskur stjórnmála en sem betur fer fágætur, að sögn hans.

Þeir sem treystast til þess að láta atkvæði sitt falt óðar en eftir því er leitað og stökka af vagninum sem dreginn var af heiðarlegu og hrekklausu fólki sem háði kosningabaráttu í góðri trú; Þeir sem berja sér á brjóst í síðbúinni vandlætingu til að breiða yfir sviksemi sína eru ekki margra aura virði. Hugsanlega þrjátíu silfurpeninga.“

Ferill slíkra manna verði þó oftlega í styttra lagi, segir hann.

„Vegna þess að boginn nagli, þó réttur sé, verður aldrei sem nýr. Þeir sem einu sinni hafa sýnt sviksemi eru ekki verðir trausts og mun ekki verða sýnt fullt traust í nýjum heimakynnum. Þeir sem í Biblíunni nefnast Farísear berja sér einatt á brjóst og þakka fyrir meinta góðsemi sína. Í slíkum býr ekki góðsemi, ekki sannleikur, ekki manndómur.“

Eitt sé að skipta um stjórnmálaflokk sökum „málefnalegs ágreinings“ en annað „orma sig inn á“ flokk sem maður tilheyrir,gagngert til þess að yfirgefa flokkinn strax að kosningum loknum og fara því inn á þing „á fölskum forsendum frá byrjun“, að sögn Þorsteins.

„Það er lítilmennska.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert