Ættu ekki að taka aspirín

mbl.is/Sverrir Vilhelmsson

Eldra fólk við góða heilsu ætti ekki að taka eina aspirín-verkjatöflu á dag. Þetta eruniðurstaða stórrar rannsóknar sem gerð var í Bandaríkjunum og Ástralíu. 

Sýnt hefur verið fram á að það að taka aspirín í kjölfar hjartaáfalls eða heilablóðfalls geti bætt heilsu. En í nýju rannsókninni fundust engin merki um að slík lyfjagjöf bætti heilsu hrausts fólks sem komið er yfir sjötugt. Hins vegar kom í ljós að pillurnar auka hættu á lífshættulegri innvortis blæðingu.

Vísindamenn segja niðurstöðurnar mikilvægar. Fólki er ávísað aspirín eftir hjartaáfall eða heilablóðfall þar sem lyfið þynnir blóðið og minnkar þannig líkur á öðru áfalli.

Í frétt BBC segir að alheilbrigt fólk taki einnig lyfið í þeirri von að það dragi úr líkum á hjartaáföllum. Bent er á að flestar rannsóknir á verkun aspiríns séu gerðar á fólki á miðjum aldri og að nú hafi verið sýnt fram á að hætta geti fylgt slíkri inntöku eftir því sem fólk er eldra.

Yfir 19.000 Bandaríkjamenn og Ástralar tóku þátt í rannsókninni. Allt var fólkið heilsuhraust, komið yfir sjötugt og hafði ekki fengið hjartaáfall. Helmingnum var gefið aspirín daglega í fimm ár. 

Niðurstöður rannsóknarinnar voru birtar í vísindatímaritinu New England Journal of Medicine, og eru þær helstar að pillurnar drógu ekki úr líkum á hjartaáföllum og höfðu ekki aðra heilsubætandi eiginleika. Hins vegar juku þær líkurnar á blæðingum í maga. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert