Vara við krabbameinshættu af bragðefnum rafrettna

Daily Telegraph segir rannsóknina sýna að bæði mentol og piparmyntu …
Daily Telegraph segir rannsóknina sýna að bæði mentol og piparmyntu vökvi fyrir rafrettur innihaldi pulegone í því magni að það teljist geta verið krabbameinsvaldandi. AFP

Rafrettur sem markaðssettar eru fyrir unglinga innihalda íblöndunarefni sem kann að reynast krabbameinsvaldandi. Þetta eru niðurstöður nýrrar rannsóknar sem unnin var af vísindamönnum við Duke University í Norður-Karólínuríki.

Breska dagblaðið Daily Telegraph segir rannsóknina sýna að bæði mentol- og piparmyntuvökvi fyrir rafrettur innihaldi pulegone, sem finnst í ilmkjaranolíum unnum úr ýmsum plöntutegundum,  í því magni að það teljist geta verið krabbameinsvaldandi.

Notkun á pulegone í matvælum var nýlega bönnuð í Bandaríkjunum.

Segir Telegraph að jafnvel mjög hófleg notkun á rafrettunum setji notendur utan þeirra marka þess sem teljist „öruggt“.

Pulgone  er hluti af olíukjarna myntuplöntunnar og er talið geta valdið lifrarkrabbameini sé þess neytt í nógu miklu magni.

Vísindamennirnir segja enn ekki vitað hvort líkaminn taki í sig pulgone í sama mæli með rafrettum og þegar það er borðað, en þeir hvetja heilbrigðisyfirvöld engu að síður til að gæta fyllstu  varúðar.

Stutt er síðan Donald Trump Bandaríkjaforseti hét því að setja bann við bragðbættum rafrettum til að draga úr líkum á að börn fari að veipa. Þá hefur breska landlæknisembættið lýst rafrettum sem „tifandi tímasprengju“.

Breska lýðheilsustofnunin (PHE) hvetur þó enn í dag til þess að þeir sem eru að reyna að hætta að reykja prófi rafrettur og segir stofnunin hættuna af rafrettum vera um 5% af hættunni sem fylgi tóbaksreykingum.

PHE sætir þó síauknum þrýstingi á að breyta stefnu sinni í ljósi nýrra rannsókna sem benda til þess að rafrettur kunni að reynast hættulegar. Segir Telegraph vísindamenn við London School of Hygiene and Tropical Medicine  m.a. hafa komist að þeirri niðurstöðu fyrr í mánuðinum að rafrettur kunni að valda hjartaskemmdum.

„Hversu mörgum viðvörunarskotum þarf að hleypa af áður en ríkisstjórnin er tilbúin að hugleiða stefnu sína,“ sagði  Simon Capewell, prófessor í lýðheilsufræðum við Liverpool háskóla. „Við virðumst vera að fá nýjar niðurstöður óháðra rannsókna í hverri viku sem benda til aukinnar hættu af völdum rafrettna.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert