„Ekki séð annað eins í langan tíma

Sigurður Reynaldsson, framkvæmdastjóri Hagkaups t.v. og Bessi Freyr Vésteinsson, bóndi …
Sigurður Reynaldsson, framkvæmdastjóri Hagkaups t.v. og Bessi Freyr Vésteinsson, bóndi á Hofsstaðaseli í Skagafirði. Ljósmynd/Aðsend

Viðbrögð neytenda létu ekki á sér standa þegar mbl greindi frá því að komið hefði sérvalið ungnautakjöt frá Hofsstaðaseli í verslanir Hagkaups í gær. Í samtali við blaðamann mbl sagði Sigurður Reynaldsson, framkvæmdastjóri Hagkaups að upp hefði orðið fótur og fit í verslununum og viðbrögðin farið langt fram úr væntingum. 

„Við höfum ekki séð annað eins í langan tíma því 35% af magninu sem átti að duga í tíu daga kláraðist í gær,“ sagði Sigurður og spáir því að annað eins muni fara í dag. Það er því yfir 400% söluaukning á nautakjöti miðað við venjulegan fimmtudag innan verslananna. Það sé því ljóst að viðbrögðin hafi verið mun sterkari og meiri en búist var við því vörutegundirnar séu margast að klárast.

„Góðu fréttirnar eru hins vegar þær að við erum búin að tryggja okkur 25 gripi í viðbót sem við eigum von á í verslanir í fyrstu vikunni í júlí. Við erum í skýjunum yfir þessum viðtökum og þökkum okkar viðskiptavinum fyrir viðbrögðin. Það er gott að finna að þeir séu jafn spenntir og við fyrir svona nýjungum og ætlum við að halda áfram að gera betur í þessum efnum. Þetta er okkur mikil hvatning og greinilegt að það er áhugi á afurðum beint frá býli,“ sagði Sigurður að lokum.

Bessi, bóndinn á Hofsstaðaseli vildi sjálfur ekki missa af fjörinu og var mættur í Hagkaup í Smáralind í dag til að upplifa stemninguna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert