„Við eigum öll möguleika á upprisu“

Guðrún Karls Helgudóttir, sóknarprestur í Grafarvogskirkju í Reykjavík.
Guðrún Karls Helgudóttir, sóknarprestur í Grafarvogskirkju í Reykjavík. Ljósmynd/Anna Kristín Óskarsdóttir

Guðrún Karls Helgudóttir, sóknarprestur í Grafarvogskirkju í Reykjavík, segir páskana í miklu uppáhaldi sér. Það er mikið að gera í kirkjunni en inn á milli ætlar hún að gefa sér tíma fyrir fjölskylduna og borða páskaegg.

Hvaða þýðingu hafa páskarnir fyrir þig?

„Pásksarnir eru í mínum huga aðalhátíð kirkjunnar. Kristin trú kristallast í upprisu Jesú Krists sem sigraði dauðann á krossinum. Páskarnir eru því hátíð lífsins. Páskarnir tákna mög skýrt í mínum huga að við eigum öll möguleika á upprisu, frá öllum okkar erfiðleikum, takmörkunum og áföllum. Í dymbilviku og um páska gefst okkur tækifæri til að lifa okkur inn í píslarsöguna, íhuga þjáningu, dauða og upprisu Krists og um leið ganga svolítið inn í okkur sjálf.“

Hvaða hluti páskanna er í mestu uppáhaldi hjá þér?

„Helgihaldið er allt svo gott og innihaldsríkt á þessari hátíð og mér finnst best að sækja það alla dagana. Það er eitthvað einstakt við það allt. Skírdagsmessan svolítið einstök í Grafarvogskirkju því þá bjóðum við fólki að njóta alvöru máltíðar saman í kirkjunni sem síðan lýkur á því að allir munir eru bornir út af altarinu, ljósin slökkt og við göngum út í nóttina.“

Er einhver boðskapur þér ofarlega í huga í ár?

„Boðskapurinn um upprisu er sístæður en í ár er mér, og sjálfsagt fleirum, ofarlega í huga sá ófriður sem ríkir á mörgum stöðum í heiminum. Þar sem stríð geisar og ófriður ríkir eru það ekki síður börn og saklausir borgarar sem deyja og það er svo vont og ósanngjart. Hér á okkar landi eru það eldsumbrotin á Reykjanesskaganum og það hvernig líf fólks í Grindavík hefur verið sett gjörsamlega úr skorðum og hvernig þau verða að upplifa endurtekin áföll. Þá þarf ég alveg að minna mig á það að lífið sigrar dauðann og við getum risið upp þó síðar verði.“

Vonast til þess að komast á skíði

Nærðu að njóta páskanna með þínum nánustu í annríkinu?

„Já. Helgihaldið og lífið í kirkjunni er samofið öllu mínu lífi, líka fjölskyldulífinu. Ég á nokkuð gott með að búa til gæðastundir með mínum nánustu þegar miklar annir eru því, auk bænar og íhugunar eru það einmitt þau sem veita mér næringu og styrk til að halda áfram. Ég stefni á að vera eitthvað með börnum og barnabörnunum mínum. Ég vona að ég komist eitthvað á skíði þó ekki sé nema smástund upp í Bláfjöll. Síðan fer ég norður eftir páska og tek þá skíðin með.“

Hvað finnst þér ómissandi að borða um páskana?

„Ég elska súkkulaði og því eru páskarnir stórhátíð hjá mér. Ég fæ alltaf páskaegg og borða það allt með bestu lyst. Annars er ég mikil matmanneskja og nýt þess að borða góðan mat. Gott lambakjöt er nauðsynlegt um páskana en nú orðið er yfirleitt líka grænkeramatur á borðum því við erum ekki öll jafn mikið fyrir kjöt.“

Guðrún stefnir á að komast á skíði.
Guðrún stefnir á að komast á skíði. Ljósmynd/Anna Kristín Óskarsdóttir
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál