Ánetjaðist sterum í fitness

Tinna Guðrún og Hlynur Kristinn Rúnarssons stjórna Það er von. …
Tinna Guðrún og Hlynur Kristinn Rúnarssons stjórna Það er von. Snæþór Jósepsson er fyrir miðju.

Snæþór Jósepsson byrjaði að æfa fitness sem ungur maður og fór að taka inn stera til að bæta árangur sinn. Snæþór varð fljótt háður sterum og fór í kjölfarið að taka inn önnur efni. Snæþór er í dag edrú og segir sögu sína í hlaðvarpsþættinum Það er von.

Snæþór ólst upp á Eksifirði og átti þar góða æsku en lýsir sér þó sem uppátækjasömum og ofvirkum krakka. „Ég var sem barn bara í beisli úti í garði, eins og hundur og búið að girða af svo ég myndi ekki stinga af.“

Frá unga aldri var hann spenntur fyrir andrenalíni og fékk ýmsar hugmyndir með misgóðum árangri. 17 ára gamall viðbeinsbrotnaði hann illa og fékk morfín. Á þeim aldri var stefnan að keppa í mótorkrossi. Á sama tíma var Snæþór einnig að flytja með fjölskyldunni til Akureyrar og skipti um sport, hann fór í fitness og byrjaði að nota stera. „Á þessum tíma var ég í mikilli gremju og ég sé það þegar ég hugsa til baka. Ég var oft í mikilli vanlíðan,“ segir Snæþór. 

„Þegar ég var kominn í þessa neyslu var ég einhvern veginn tilbúinn til þess að samþykkja að verða geðveikur í hausnum og með lítið typpi til þess að ná mínu markmiði í fitness,“ segir Snæþór og bætir við að markmiðin hafi svo bara breyst. Hann keppti mikið og ört og varð Íslands- og bikarmeistari auk þess að keppa erlendis.

Innan við viku eftir að Snæþór prófaði kókaín í fyrsta skipti var hann farinn að selja og nota daglega. „Það voru engar hömlur, það var aldrei hugmynd að sleppa því. Ég hætti fljótlega í vinnunni, sem betur fer, maður er nokkuð vel gefinn miðað við hvað maður er heimskur.“

Það fór að halla undan fæti eftir tvö og hálft ár í daglegri neyslu, hann sat aftur í bíl hjá foreldrum sínum þegar lögreglan stöðvaði bílinn. Hann var með mikið magn af efnum á sér sem voru gerð upptæk. Þá þurfti hann að selja meira til að geta borgað fyrir það sem lögreglan tók. Snæþór reyndi að bjarga sér fyrir horn aftur og aftur en alltaf varð snjóboltinn stærri sem hann var að velta á undan sér.

Snæþór sökk mun dýpra í neyslu eftir að hann hálsbrotnaði á krossara og fékk uppáskrifað OxyContin, morfínlyfi. Í lok júní 2019 fór hann inn á Vog eftir að hafa beðið eftir innlögn frá því í febrúar. Hann ætlaði eftir það á Krýsuvík en staðan var orðin önnur en hún var þegar hann pantaði í meðferð. „Ég kalla þetta alltaf harkið fyrir Krýsuvík.“

Snæþór tók hliðarspor fyrir 14 mánuðum síðan og lærði mikið af því. Hann hélt að hann skildi sjúkdóminn alveg en allt í einu var hann dottinn í það, eitt kvöld. „Ég er ótrúlega þakklátur fyrir þetta í dag þó ég hafi verið sár út í sjálfan mig svona fyrst á eftir,“ segir Snæþór um hliðarsporið sem hann tók en lærði af.

Í þættinum talar Snæþór um þakklæti sem hann finnur fyrir og hvernig líf hans hefur breyst með því að verða edrú og vinna í sjálfum sér. Hann segir frá því hvernig neyslan tók hann á slæma staði, hvernig hann var að flýja líðanina sína og að hafa verið öðruvísi en hinir allt frá barnsaldri.

Hægt er að hlusta á hlaðvarpsþáttinn Það er von á hlaðvarpsvef mbl.is

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál