Hvenær er mælt með að konur byrja að nota „anti aging“ vörur?

Jenna Huld Eysteinsdóttir húðlæknir á Húðlæknastöðinni.
Jenna Huld Eysteinsdóttir húðlæknir á Húðlæknastöðinni. mbl.is

Jenna Huld Eysteinsdóttir húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda Smartlands. Hér fær hún spurningu frá manneskju sem veltir fyrir sér hvenær sé hentugt að fara að nota fyrirbyggjandi húðvörur. 

Sæl Jenna,

hvenær er mælt með að konur byrja að nota „anti aging“ vörur? Hef heyrt og séð stelpur niður í 14 ára aldur nota krem fyrir 50+. Hvað segir sérfræðingurinn?

Kveðja, 

HG

Komdu sæl og takk fyrir þessa áhugaverðu spurningu.

Þessi spurning brennur örugglega á morgun. Auðvitað er algjör óþarfi að svona ungar stelpur, eins og þú nefnir um 14 ára aldur, séu að nota „anti-aging“ krem ætluð þroskaðri húð. Oft eru ungar stúlkar á kynþroskaaldrinum með feita húð vegna hormónabreytinga og þurfa þá að nota A-vitamin krem eins og retinól eða retinóíða til að minnka virkni fitukirtlanna og koma í veg fyrir bólur. Þá eru þessi krem notuð sem lyf gegn bólum á þessu aldri, ekki sem „anti-aging“ krem. Það er því kjörið að byrja að hugsa um húðina í kringum unglingsaldurinn og koma sér upp góðri húðrútínu fyrir framtíðina. Það er samt sem áður því miður um 25 ára aldurinn sem að kollagenbirgðir húðarinnar fara að minnka, það er að segja að við brjótum kollagenið okkar hraðar niður en við myndum það. Það er því mjög mikilvægt að byrja snemma að huga að húðheilsu okkar og vernda þetta mikilvæga uppbygginarefni okkar í húðinni.

Við Íslendingar fáum ekki of mikla sól og höfum því enn meiri ánægju af henni þegar hún loksins lætur sjá sig. Margir stunda mikla útivist eins og skíðamennsku, hestamennsku, golf og fjallgöngur, á meðan aðrir njóta útiverunnar í garðinum heima. Það er mjög mikilvægt að hugsa vel um húðina snemma, bera á sig sólarvörn, þar sem það er strax á þrítugsaldri sem að litabreytingar byrja að myndast og öldrun húðarinnar. Hér koma nokkrar ráðleggingar frá okkur húðlæknunum til ungra kvenna á þrítugsaldri sem langar að byrja að huga að húðheilsunni:

  1. Sólarvörn, sólarvörn og AFTUR sólarvörn!
  2. Retinól krem
  3. Ávaxtasýrur (AHA´s)
  4. Einföld húðumhirða


- Byrjaðu snemma að hugsa vel um húðina og komdu þér upp þínu eigin húðmeðferðarplani .
- Notaðu sólarvörn reglulega og þá með minnst 30 í SPF. Ef þú ferðast til heitari landa þar sem sólin er mjög sterk eða stundar mikla útivist hér á Íslandi þá mælum við með því að nota sólarvörn reglulega yfir daginn, amk tvisvar sinnum, og þá helst með minnst 50 í SPF.  

- Notaðu retinól krem á kvöldin, bæði til að viðhalda nýmyndun kollagens sem er aðal byggingarefni húðarinnar og til að koma í veg fyrir fílapensla og bólur.
- Heimameðferð með sterkum ávaxtasýrum (AHA´s, 10-20%) einu sinni til tvisvar í viku ef olíukennd húð og tilhneiging til að fá fílapenslur og opnar svitaholur. Ef mikið olíukennd húð, mikil tilhneiging til að fá bólur þá jafnvel enn sterkari meðferð hjá húðlæknum með sterkari sýrum (Medical Peel) af og til.

- Þú getur byrjað að nota virk andoxunarefni eins og C-vítamín í fyrirbyggjandi skyni. Yfirleitt 3-4 dropar á morgnana á þurra húð.

- Reyndu að hafa þetta einfalt og sem hagkvæmast. Þarft ekki flóknar húðvörur á þessum aldri.

Kær kveðja,

Jenna Huld Eysteinsdóttir

Liggur þér eitthvað á hjarta? Þú getur sent Jennu Huld spurningu HÉR. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál