„Hælarnir á mér eiga það til að harðna“

DR Gunni og snyrtibuddan
DR Gunni og snyrtibuddan Árni Sæberg

Gunnar Lárus Hjálmarsson eða Dr. Gunni eins og hann er kallaður segist vera með hina fullkomnu húð. Hún sjái um sig sjálf sem er mikill kostur fyrir fólk sem lifir annasömu lífi. Doktorinn er nú búinn að vinna hjá Þjóðskrá Íslands í fimm ár en hann hefur þó nægan tíma til að sinna listinni því á föstudaginn kom formlega út nýtt lag. 

Hvernig hugsar þú um húðina?

„Ég er mjög heppinn og vel af guði gerður og þarf því mjög lítið að hugsa um húðina. Hún hugsar um sig sjálf og er ávallt í hinu fullkomna rakastigi. Ég og húðin erum eitt.“

Gerir þú eitthvað sérstakt til að halda í æskublóma?

„Ég reyni að vera jákvæður og lifa í núinu, eins og er í tísku núna. Ég reyni að brosa mikið og reyni að brosa framan í ókunnuga. Það er gríðarlega gaman ef þeir brosa á móti því þá verður til alls konar endurfón-sull sem hefur góð áhrif á húðina og geðið. Ég vakna á hverjum degi jákvæður og glaður yfir því að hafa ekki drepist í svefni. Ég reyni að hafa alltaf eitthvað til að hlakka til. Og vera ferskur. Með þessu öllu held ég náttúrlega ekki í neinn æskublóma, enda bara eðlilegt og gott að eldast, en mér líður alveg gríðarlega vel.“

Hver er þín uppáhaldshúðvara?

„Ætli það sé ekki bara Footguard frá Maricell sem er búið til á Ísafirði, úr fiskroði held ég. Hælarnir á mér eiga það til að harðna og brotna upp en eftir tvo-þrjá umganga af þessu kraftaverkakremi eru þeir eins og á nýfæddu barni.“

Þetta fótakrem notar hann til þess að vera eins og …
Þetta fótakrem notar hann til þess að vera eins og ungbarn um lappirnar. mbl.is/Árni Sæberg

Ertu með sérstaka rútínu í húðumhirðu?

„Eftir rakstur set ég á mig aftershave-krem. Ég notaði árum saman Hugo Boss en á síðustu tax free-dögum var það ekki til svo ég svissaði yfir í Acqua di Gio frá Armani. Sé alls ekki eftir því. Eftir sturtu þarf ég svo aðeins að mýkja upp hendurnar og eftir nokkra rannsóknar- og samanburðarvinnu hef ég komist að því að 10% karbamíð frá Gamla apótekinu virkar best fyrir mig.“

Armani og Gamla Apótekið gera mikið fyrir útlit Dr. Gunna.
Armani og Gamla Apótekið gera mikið fyrir útlit Dr. Gunna. mbl.is/Árni Sæberg

Hefurðu borið á þig andlitsmaska?

„Já. Á flugvellinum í Vín féll ég í gildru og lét stimamjúka sölukonu pranga inn á mig maska- og kremsetti frá BonAge. Hún var búin að nudda þessu á mig og ég bara gat ekki gengið í burtu án þess að kaupa neitt. Ég hef reynt að bera þetta framan í mig en finnst það bara mjög óeðlilegt og óþægilegt. Þarf ekkert á þessu að halda enda með pottþétta húð.“

Þessu var prangað inn á Dr. Gunna þegar hann var …
Þessu var prangað inn á Dr. Gunna þegar hann var staddur á flugvelli. mbl.is/Árni Sæberg

Notar þú sólarvörn? 

„Nei, helst ekki. Er frekar með sólhatt.“

Hvaða húðvöru dreymir þig um að eignast?

„Ég get nú ekki sagt að mig dreymi um að eignast einhverja sérstaka tegund af húðvörum. Því miður kannski.“

Nú var hljómsveitin Dr. Gunni að gefa út nýtt lag, Faðir Abraham. Hvernig viðheldur þú neistanum í tónlistinni?

„Á meðan það er alltaf jafn gaman að hitta strákana og drekkja okkur saman í rokki og hávaða þá verður alltaf neisti. Við hittumst ekki nema einu sinni í viku og kannski myndi neistinn slokkna ef við hittumst oftar og þetta væri orðið meira eins og vinna. Við erum hobbíband.“

Hvað á eftir að koma fólki á óvart hvað lagið varðar?

„Tja, þetta er poppað rokklag sem fólk ætti að fá á heilann eftir eina umferð. Textinn er dálítið pólitískur og fjallar um flóttamann sem er alls staðar óvelkominn og hrekst undan valdinu. Svo erum við með gullfallegar bakraddir frá Jelenu Ciric og Anastasiiu Yefimenko. Þetta er hinn snotrasti ópus þótt ég segi sjálfur frá.“

Hvernig verður sumarið hjá þér?

„Ég er safna mér orlofi fyrir heimsreisu sem ég hyggst fara í snemma á næsta ári. Ég ætla þó að ferðast aðeins innanlands í sumar. Fer hringinn með áherslu á Austfirði og er svo að spila á Act Alone á Suðureyri í byrjun ágúst. Þá ætla ég auðvitað að gera það sem stendur upp úr fyrir vestan; fara í musteri vatns og vellíðunar, sundlaugina í Bolungarvík, og éta yfir mig á Tjöruhúsinu.“



Takk fyrir mig! Sjáumst! Bkv, Gunni

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál