Patrik Sigurður í Brentford

Patrik Sigurður Gunnarsson er kominn til Brentford.
Patrik Sigurður Gunnarsson er kominn til Brentford. Ljósmynd/blikar.is

Breiðablik og Brentford hafa komist að samkomulagi um að markvörðurinn Patrik Sigurður Gunnarsson gangi til liðs við síðarnefnda félagið. Brentford er frá London og leikur í ensku B-deildinni í knattspyrnu.

Patrik er fæddur árið 2000 og er uppalinn hjá Breiðabliki. Hann hefur verið reglulegur hluti af meistaraflokkshópi Breiðabliks undanfarin tvö keppnistímabil en í vor var hann lánaður til ÍR. Þar spilaði hann fimm leiki í Inkasso-deildinni og þrjá í Mjólkurbikarnum. Patrik hefur leikið 10 unglingalandsleiki fyrir Íslands hönd með U17 og U18.

Patrik er þriðji leikmaðurinn úr 2000 árganginum hjá Breiðabliki sem gengur til liðs við atvinnumannalið erlendis. Á síðasta ári fóru þeir Arnór Borg Guðjohnsen og Ágúst Eðvald Hlynsson til erlendra liða.

Fimm Íslendingar hafa áður leikið með Brentford sem er frá vesturhluta London. Hermann Hreiðarsson, Ívar Ingimarsson, Gunnar Einarsson, Ólafur Gottskálksson og Ólafur Ingi Skúlason léku með liðinu í lengri eða styttri tíma á árunum 1998 til 2007. Ívar og Ólafur voru þar lengst, í þrjú ár hvor.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert