Hundleiðinlegt lið að spila við

Arnór Sigurðsson var að spila sinn þriðja landsleik gegn Andorra …
Arnór Sigurðsson var að spila sinn þriðja landsleik gegn Andorra í kvöld. AFP

„Maður hefur spilað svona leiki áður þar sem liðin falla djúpt til baka og spila hundleiðinlegan fótbolta,“ sagði Arnór Sigurðsson, leikmaður íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu, í samtali við mbl.is eftir 2:0-sigur liðsins gegn Andorra í fyrsta leik liðsins í undankeppni EM á Estadi Nacional-vellinum í Andorra la Vella í kvöld.

„Við vissum hverju við áttum von á og númer eitt tvö og þrjú þá tókum við þrjú stig úr leiknum og það er það eina sem skiptir máli. Þeir voru fastir fyrir og um leið og maður fékk boltann voru þeir mættir í bakið á okkur til þess að taka okkur niður. Við fengum því ekki mikinn tíma á boltann en við stjórnuðum leiknum allan tímann og áttum sigurinn fyllilega skilinn.“

Arnór viðurkennir að hann hafi átt von á hundleiðinlegum leik í kvöld gegn leikmönnum Andorra.

„Við vissum það fyrir fram að þetta er hundleiðinlegt lið að spila við. Þeir eru grófir og taka góðan tíma í allt sem þeir gera en við héldum haus allan tímann og gerðum það vel. Það er mikill heiður að fá að spila með þessum strákum sem hafa náð þessum magnaða árangri fyrir Íslands hönd. Núna vil ég bara halda áfram og komast á EM 2020 og við erum allir að róa í sömu átt.“

Arnór var að spila sinn þriðja landsleik í kvöld en sá næstreynsluminnsti, í byrjunarliði íslenska liðsins, var Alfreð Finnbogason með 52 landsleiki á bakinu.

„Strákarnir hafa tekið mér opnum örmum og þeir hafa stutt vel við bakið á mér. Þetta eru allt reynslumiklir landsliðsmenn og þeir eru duglegir að miðla af reynslu sinni og hjálpa mér að komast inn í hlutina,“ sagði Arnór Sigurðsson í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert