Óvæntur sigur Dalvíkur/Reynis á Þór

Alberto Aragonses í marki Dalvíkur/Reynis í hörðum slag við Orra …
Alberto Aragonses í marki Dalvíkur/Reynis í hörðum slag við Orra Sigurjónsson í dag. Ljósmynd/Þórir Tryggvason.

Dalvík/Reynir vann glæsilegan 3:2-sigur á Þór í Boganum í 2. umferð Mjólkurbikars karla í fótbolta í dag. Dalvík/Reynir leikur í 2. deild á komandi sumri eftir sigur í 3. deildinni á síðasta ári á meðan Þór var í toppbaráttu í Inkasso-deildinni. 

Jónas Björgvin Sigurbergsson kom Þór yfir á 17. mínútu en Pálmi Heiðmann Birgisson jafnaði á 22. mínútu. Orri Sigurjónsson kom Þór aftur yfir á 45. mínútu og voru Þórsarar því með 2:1-forystu í hálfleik.

Dalvík/Reynir gafst hins vegar ekki upp og Númi Kárason jafnaði á 57. mínútu áður en Borja Lopez tryggði Dalvík/Reyni sigur á 62. mínútu. 

Guðjón Máni Magnússon var hetja Fjarðabyggðar sem leikur í 2. deildinni gegn Hetti/Huginn sem spilar í 3. deild. Hann skoraði bæði mörk liðsins í uppbótartíma í 2:0-útisigri á Fellavelli. 

Loks vann Vestri 3:1-sigur á Kára á Olísvellinum á Ísafirði. Páll Sindri Einarsson kom Vestra yfir á 18. mínútu og Pétur Bjarnason bætti við tveimur mörkum fyrir leikhlé. Andri Júlíusson minnkaði muninn úr víti á 50. mínútu en nær komst Kári ekki. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert