Meiðsli herja á Valsmenn

Ólafur Karl Finsen spilar ekki meira með Valsmönnum í sumar.
Ólafur Karl Finsen spilar ekki meira með Valsmönnum í sumar. mbl.is/Árni Sæberg

Ólafur Karl Finsen mun ekki leika fleiri leiki með Valsmönnum í úrvalsdeild karla í knattspyrnu, Pepsi Max-deildinni, en Logi Ólafsson, fyrrverandi þjálfari og sérfræðingur í sjónvarpi, greindi frá þessu í Pepsi Max-mörkunum á Stöð 2 Sport í gærkvöldi.Ólafur fór í aðgerð á ytri liðþófa í hné á dögunum og mun því missa af restinni af tímabilinu. 

Ólafur Karl hefur verið einn besti leikmaður Valsmanna á þessari leiktíð en hann skoraði fimm mörk í tólf deildarleikjum með liðinu í sumar en hann fór meiddur af velli í hálfleik í leik Vals og FH 11. ágúst.

Sigurður Egill Lárusson fór meiddur af velli í gær í 3:3-jafntefli liðsins  gegn Breiðabliki og fótbolti.net greinir frá því að hann sé tognaður í nára. Þá fór Patrick Pedersen, framherji Vals, einnig meiddur af velli en hann ætti þó að vera klár í slaginn.

Danski miðjumaðurinn Lasse Petry mun einnig missa af restinni af tímabilinu vegna meiðsla en liðið er í sjötta sæti deildarinnar með 24 stig, fjórum stigum frá Evrópusæti.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert