Hafði ekki rosalega góða reynslu af Rússlandi

Viðar Örn Kjartansson og félagar í landsliðinu þakka fyrir sig …
Viðar Örn Kjartansson og félagar í landsliðinu þakka fyrir sig á Laugardalsvelli eftir sigurinn gegn Moldóvu í gær. mbl.is/Kristinn Magnússon

Viðar Örn Kjartansson landsliðsframherji í knattspyrnu er ánægður með lífið hjá sínu nýja félagi, Rubin Kazan, sem fékk hann lánaðan frá Rostov í sumar en bæði liðin leika í rússnesku úrvalsdeildinni.

Viðar kom til Rostov fyrir rúmu ári frá Maccabi Tel Aviv í Ísrael en fékk fá tækifæri með liðinu og var síðan lánaður til Hammarby í Svíþjóð þar sem hann lék fyrri hluta tímabilsins í sænsku úrvalsdeildinni. Hann sagði við mbl.is að breytingin hefði verið af hinu góða fyrir sig.

„Ég hafði ekkert rosalega góða reynslu af Rússlandi eftir dvölina hjá Rostov. Mín staða þar var þannig að mér fannst ég ekki geta breytt henni á nokkurn hátt. Það var hinsvegar mjög gott að koma í félag eins og Rubin Kazan og hvað mig varðar er mikill munur á þessum liðum. Mér líður miklu betur, finnst þjálfarinn hafa trú á mér og svo spilar liðið fótbolta sem hentar mér betur. Liðið reynir mikið meira að spila boltanum í stað þess að vera með langar sendingar. Þetta hefur farið vel af stað, ég er allavega búinn að opna markareikninginn, hefði viljað vera búinn að skora eitt, tvö eða þrjú mörk í viðbót, en vonandi tekst mér að spila vel í komandi leikjum,“ sagði Viðar.

Viðar Örn Kjartansson
Viðar Örn Kjartansson mbl.is/Eggert Jóhannesson

Blendnar tilfinningar að fara aftur til Rostov

Lánssamningurinn gildir út þetta tímabil. „Að því loknu hefur Rubin Kazan forkaupsrétt á mér og ef mér gengur vel gætu góðir hlutir gerst þegar lánsdvölinni lýkur. Ég held hinsvegar að Rostov sé alveg úr sögunni þó ég sé samningsbundinn þar í tvö ár til viðbótar. Það yrðu allavega mjög blendnar tilfinningar ef ég færi þangað aftur,“ sagði framherjinn frá Selfossi sem lék í Noregi, Kína og Svíþjóð áður en hann fór til Ísrael á sínum tíma. Hann hefur nú leikið í deildakeppni í sex löndum og skorað í þeim öllum, samtals 141 mark í 308 deildaleikjum á ferlinum.

Betra en að spila ekki

Viðar kom inná sem varamaður seint í leiknum við Moldóva á Laugardalsvellinum í gær. „Eins og leikurinn þróaðist hefði ég alveg viljað koma aðeins fyrr inná og fá meiri hreyfingu. Þetta voru einhverjar tíu mínútur en við unnum og það skipti mestu máli. Ég fékk að koma inná og snerta boltann aðeins og það var betra en að spila ekki. Strákarnir skiluðu verkefninu vel, moldóvska liðið var ekkert auðvelt á meðan staðan var 0:0, þeir eru með nokkra stóra varnarmenn og voru fínir þangað til við skoruðum. En við náðum í stigin þrjú sem við vildum,“sagði Viðar Örn Kjartansson, sem kom til Tirana í kvöld ásamt félögum sínum í landsliðinu og þeir búa sig nú undir leikinn við Albana sem fer fram í Elbasan á þriðjudagskvöldið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert