Pabbi er örugglega mjög sáttur

Willum Þór Willumsson
Willum Þór Willumsson mbl.is/Árni Sæberg

Willum Þór Willumsson var að mati undirritaðs besti maður vallarins í Víkinni í kvöld þegar U21 árs landslið karla í knattspyrnu burstaði Armena 6:1 í undankeppni Evrópumótsins.

Willum Þór hóf markaveisluna í Víkinni í kvöld og skoraði þar með í öðrum leiknum í röð en hann skoraði eitt af mörkum Íslands í 3:0-sigrinum gegn Lúxemborg á föstudaginn.

„Við erum komnir með sex stig úr fyrstu tveimur leikjunum og það er nokkuð sem við ætluðum okkur að gera. Það var jafnræði með liðunum til að byrja með en við fundum að við vorum betra liðið og um leið og fyrsta markið kom var þetta aldrei spurning,“ sagði Willum Þór við mbl.is eftir leikinn en hann lét mikið til sín taka á miðsvæðinu og var áberandi í sóknarleik íslenska liðið.

„Við slöppuðum fullmikið af í byrjun seinni hálfleiks í stöðunni 3:0 en eftir að Armenarnir skoruðu fannst mér við stíga á bensíngjöfina. Við erum með mjög flottan hóp og þeir sem komu inná í seinni hálfleik frískuðu mjög upp á leik okkar,“ sagði Willum en yngri bróðir hans, Brynjólfur Darri, átti lokaorðið þegar hann skoraði sjötta markið. Spurður hvort hann sé ekki ánægður með hlutskipti sitt í þessum tveimur fyrstu leikjum sagði Willum:

„Jú algjörlega. Ég skoraði fyrsta landsliðsmarkið í leiknum á móti Lúxemborg og ég fylgdi því eftir í kvöld. Það er alltaf gaman að skora og hjálpa liðinu sínu,“ sagði Willum en karl faðir hans, alþingismaðurinn og fyrrverandi fótboltamaðurinn Willum Þór Þórsson, var í stúkunni og fylgdist með sonum sínum skora hvor sitt markið. „Pabbi er örugglega mjög sáttur.“

„Það er mikil samkeppni í liðinu og það er gott að geta fengið góða menn inná. Það var gaman að sjá Brynjólf skora. Hann hefði nú getað gefið boltann en fínt fyrst hann skoraði. Við settum okkur það markmið að vinna alla okkar heimaleiki og þetta er góð byrjun. Mér fannst við vinna þessa leiki mjög sannfærandi og þeir gefa okkur byr undir báða vængi fyrir næstu leiki sem verða í október.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert