Það verður allt vitlaust þarna í lokin

Rúnar Kristinsson þjálfari KR var ánægður með baráttuna þrátt fyrir …
Rúnar Kristinsson þjálfari KR var ánægður með baráttuna þrátt fyrir svekkjandi tap á heimavelli. Hann kemur skilaboðum áleiðis í kvöld. mbl.is/Arnþór Birkisson

Rúnar Kristinsson þjálfari KR kveðst afar svekktur með úrslit kvöldsins en KR-ingar töpuðu 1:2 fyrir Víkingum í æsispennandi leik á Meistaravöllum í kvöld. Fara líkur á Evrópusæti minnkandi en fyrir leikinn í dag voru KR-ingar í 3. sæti Pepsi Max deildar karla í fótbolta.

Það vantaði ekki upp á dramatíkina í Vesturbænum en alls fóru 11 spjöld á loft, þar af þrjú rauð. Bæði lið skoruðu snemma í leiknum en það varð ekki fyrr en á 87. mínútu sem að Víkingar komust aftur yfir. Í uppbótartíma kemur síðan upp áhugavert atvik í vítateig Víkings sem leiðir af sér hávaða rifrildi og átök. Fara misjafnar sögur um hvað leiddi til þess. KR-ingar fengu á endanum víti sem Ingvar Jónsson ver.

Sárt að brenna vítinu

„[Það var] ofboðslega sárt að tapa leiknum verandi með vítaspyrnu í restina og geta ekki nýtt hana. Mér fannst við vera betri aðilinn,“ sagði Rúnar í lok leiks. Telur hann KR-inga hafa verið meira með boltann í leiknum og sótt meira á Víkinga. 

Þrátt fyrir að mikinn hita var Rúnar sáttur með spilamennskuna í leiknum kunni hann að meta „hörku baráttuna“.

Það er blautur völlur og mikið undir, mikil spenna í andrúmsloftinu, stúkan var vel með á nótunum hjá báðum liðum, það var hiti á bekknum, rifrildi og slagsmál. [...] Það er gaman í fótbolta þegar það verða einhver læti.“

Veit ekki hvað gerðist í vítateignum

Líkt og margir aðrir viðstaddir kveðst Rúnar ekki meðvitaður um hvað gerðist í vítateig Víkinga þegar allt sauð upp úr rétt fyrir lok leiksins. Segist hann jafnframt ekki vita nákvæmlega á hvað vítaspyrnan var dæmd en að leikmenn liðsins hafi verið sannfærðir um að hún hafi átt rétt á sér.

„Það verður allt vitlaust þarna í lokin. Víkingar vissulega að reyna að bjarga sínu marki og við að reyna að skora og úr verður einhver hasar og það verða einhver slagsmál.“

Spurður hvort spennustigið hafi verið mikið í hópnum segir hann sína menn hafa verið „salla rólega“ en hins vegar telur hann spennuna meiri hjá Víkingum. Segir hann sína menn hafa brotið klaufalega í leiknum en hins vegar hafi svipuð atvik átt sér stað meðal Víkinga og hefði hann viljað sjá dómarann spjalda fyrir þau líka.

Ná vonandi í lið fyrir næsta laugardag

Fimm KR-ingar fengu að sjá spjöld í leiknum, þar af Kjartan Henry Finnbogason sem fékk að líta rauða spjaldið í uppbótartímanum. Er því ljóst að það fækkar í þeim hópi sem getur tekið þátt í síðustu umferð Pepsi Max-deildarinnar. 

„Af þessum gulu spjöldum sem við fengu þá held ég að tveir eða þrír séu að fara í leikbann þannig að við verðum aðeins að telja í hópinn og sjá hvernig við getum stillt upp á laugardaginn. Þannig að morgundagurinn fer í það að telja í lið og sjá hvort við eigum ekki nógu marga.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert