Það var ekkert annað í boði en að sigra

Valgeir Valgeirsson í baráttu við Daníel Laxdal fyrirliða Stjörnunnar í …
Valgeir Valgeirsson í baráttu við Daníel Laxdal fyrirliða Stjörnunnar í leiknum í kvöld. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Valgeir Valgeirsson var hetja HK í kvöld þegar liðið lagði Stjörnuna að velli í lokaleik 21. umferðar úrvalsdeildar karla í fótbolta og kom sér með því úr fallsæti deildarinnar.

Hann skoraði sigurmarkið, 1:0, og það kom HK upp í 20 stig en fyrir neðan eru ÍA með 18 stig og Fylkir sem er með 16 stig og féll með þessum úrslitum í Kórnum í kvöld.

„Loksins kom markið og það kom á besta tímapunktinum, í stærsta leiknum mínum á ferlinum með meistaraflokki, og þetta gerir mikið fyrir okkur. Ég gæti ekki verið ánægðari," sagði Valgeir við mbl.is eftir leikinn.

„Ég fékk boltann eftir fyrirgjöfina og ég hitti hann ekki nógu vel. En sem betur fer snerti hann varnarmann á leiðinni, mér sýndist boltinn breyta aðeins stefnu og þar með fór hann alveg út í hornið fjær. Það var geggjuð tilfinning að horfa á eftir honum," sagði Valgeir sem hafði skorað sjö mörk í deildinni á fyrstu tveimur tímabilum sínum með HK en ekki náð að skora fram að þessu á yfirstandandi tímabili.

„Eftir þetta var bara barátta fram á síðustu sekúndu, við þurftum að berjast fyrir þessum sigri frá fyrstu til síðustu mínútu. Við vorum manni færri og urðum að fórna okkur í allt á þessum lokamínútum. En mér leið samt vel á lokamínútunum, Stjarnan fékk engin risatækifæri til að koma skoti á mark. Það var ekkert annað í boði en að halda þetta út, við urðum að vinna leikinn og þessi þrjú stig gera gríðarlega mikið fyrir okkur. Nú mætum við í Blikaleikinn og tökum stig þar líka. Þessi sigur gefur okkur enn meira sjálfstraust, ekki síst eftir að hafa skorað markið manni færri. Ég get ekki beðið eftir næsta leik," sagði Valgeir.

Umdeilt atvik átti sér  stað fjórum mínútum fyrir mark Valgeirs þegar félagi hans Birnir Snær Ingason fékk rauða spjaldið fyrir meintan leikaraskap í vítateig Stjörnunnar. „Ég sá þetta þokkalega, Stjörnumaðurinn fór framfyrir Birni og truflaði hann þannig að ég hélt að þarna yrði dæmd vítaspyrna. En ég veit ekki, ég verð að sjá þetta betur í sjónvarpinu," sagði Valgeir Valgeirsson.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert