Lappirnar á jörðinni, djöflast áfram og taka næsta leik

Arnar Grétarsson, þjálfari KA.
Arnar Grétarsson, þjálfari KA. mbl.is/Þórir Tryggvason

„Við erum vissulega efstir í deildinni núna en það væri nú skemmtilega ef þetta væri tuttugasta og sjöunda umferðin en ekki sjötta,“  sagði Arnar Grétarsson þjálfari KA eftir 3:0 sigur á ÍA þegar liðin mættust á Akranesi til að spila í 6. umferð efstu deildar karla í fótbolta, Bestu deildinni.

KA-menn tylltu sér á topp deildarinnar og í ljós kemur á mánudaginn hvort Blikar hirða það aftur er þeir mæta Víkingum.  Valur gat líka ýtt KA niður fyrir sig en tókst ekki eftir tap fyrir Stjörnunni í kvöld.  „Mér finnst það gefa okkur því voðalega lítið að vera efstir núna, nema trúna á að allt sé hægt en mótið er  bara að byrja.  Ég held samt að við eigum skilin þessi stig sem við höfum náð að safna og nú er bara að hafa lappirnar á jörðinni, halda áfram að djöflast og taka næsta leik.“

Skagamenn hafa oft byrjað leiki af miklum krafti en Arnar var viðbúinn.  „Við eyðum töluverðri vinnu í að skoða alla andstæðinga, meðal annars fer markmannsþjálfari okkar yfir hvar menn eru líklegastir til að skjóta í vítum.  Það er hluti af því að vera í þjálfun að reyna taka sem flesta óvissuþætti út, vita þá hvað mótherjinn gerir í mismundandi stöðum og slíkt.“  

„Hinsvegar buðu aðstæður  ekki uppá flottan fótbolta,  völlurinn ósléttur og skrjáfþurr auk þess að vindurinn á vellinum var tölvuverður.  Þetta eru ekki bestu aðstæður til að spila fótbolta en mér fannst við skapa alveg nógu mikið, skorum þrjú góð mörk en ég veit ekki með markið sem var dæmt af Skaganum og síðan vítið.   Flott hjá markmanni okkar að verja en strákar sem voru fyrir aftan markið fannst afar mjúkt brot.  Það var reyndar vendipunktur í leiknum því Skagamenn hefðu getað komist inn í leikinn með því að skora,“ sagði þjálfarinn.   

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert