Þriggja stiga forskot FH-inga

FH er með þriggja stiga forskot á toppi deildarinnar.
FH er með þriggja stiga forskot á toppi deildarinnar. mbl.is/Kristvin Guðmundsson

FH náði þriggja stiga forskoti á toppi Lengjudeildar kvenna í fótbolta með 4:1-heimasigri á Fjarðabyggð/Hetti/Leikni á Kaplakrikavelli í Hafnarfirði í kvöld. FH er með 29 stig á toppnum, þremur meira en HK og með leik til góða.

Berglind Þrastardóttir kom FH yfir strax á 2. mínútu en hin kínverska Linli Tu jafnaði á 5. mínútu með sínu tólfta marki í deildinni í sumar. Er hún er langmarkahæst, fimm mörkum á undan næstu konum.

Markið dugði hinsvegar skammt því Rannveig Bjarnadóttir kom FH í 3:1 með mörkum á 15. og 45. mínútu. Telma Hjaltalín Þrastardóttir gulltryggði 4:1-sigur með marki á 83. mínútu.

Augnablik fór upp í sjötta sæti með öruggum 3:0-heimasigri á botnliði Fjölnis á Kópavogsvelli. Hrafnhildur Ása Halldórsdóttir, Harpa Helgadóttir og Sara Svanhildur Jóhannsdóttir gerðu mörk Augnabliks í fyrri hálfleik.

Þá skildu Fylkir og Haukar jafnir, 2:2. Hulda Hrund Arnarsdóttir og Vienna Behnke, fyrrverandi leikmaður Hauka, komu Fylki í 2:0 í fyrri hálfleik en þær Birta Birgisdóttir og Keri Birkenhead svöruðu í seinni hálfleik og þar við sat.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert