United blandar sér í baráttuna um Kovačić

Mateo Kovačić er eftirsóttur af mörgum stórliðum en hann gæti …
Mateo Kovačić er eftirsóttur af mörgum stórliðum en hann gæti yfirgefið Real Madrid í sumar. AFP

Enska knattspyrnufélagið Manchester United hefur blandað sér í baráttuna um Mateo Kovačić, miðjumann Real Madrid en það er Manchester Evening News sem greinir frá þessu í kvöld. Leikmaðurinn hefur ekki átt fast sæti í liði Real Madrid síðan hann kom til félagsins frá Inter Milan árið 2015.

Jose Mourinho, knattspyrnustjóri Manchester United vill styrkja miðsvæðið hjá liðinu fyrir komandi átök í ensku úrvalsdeildinni en Marouane Fellaini er á förum frá félaginu og þá lagði Michael Carrick skóna á hilluna í vor. United keypti brasilíska miðjumanninn Fred í gær fyrir 52 milljónir punda og þá samdi félagið við bakvörðinn Diogo Dalot í dag.

Mourinho vill klára leikmannakaup liðsins áður en heimsmeistaramótið í Rússlandi hefst í næsta mánuði en Kovačić er í króatíska landsliðshópnum sem fer á HM. Hann á að baki 40 landsleiki með Króatíu, þrátt fyrir að vera einungis 24 ára gamall.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert