Önnur goðsögn United í frægðarhöllina

Roy Keane starfar í dag hjá Sky Sports.
Roy Keane starfar í dag hjá Sky Sports. AFP

Knattspyrnumaðurinn fyrrverandi Roy Keane var vígður inn í frægðarhöll ensku úrvalsdeildarinnar í dag en hann er fjórði leikmaðurinn sem er vígður inn í höllina frá stofnun hennar í apríl á þessu ári.

Fyrir höfðu þeir Alan Shearer og Thierry Henry verið vígðir inn í frægðarhöllina og Frakkinn og fyrrverandi liðsfélagi Keane hjá Manchester United, Eric Cantona, bættist við í morgun.

Keane var fyrirliði United til fjölda ára en hann varð sjö sinnum Englandsmeistari með United, fjórum sinnum bikarmeistari og einu sinni Evrópumeistari með félaginu.

Írski miðjumaðurinn lék 470 leiki fyrir félagið í öllum keppnum þar sem hann skoraði 51 mark á árunum 1993 til ársins 2005.

Hann lagði skóna á hilluna árið 2006 en hann er 49 ára gamall í dag og starfar sem sparkspekingur hjá Sky Sports.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert